Innanríkisráðuneytið hefur sent frá sér drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Skýrslan verður hluti af úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum.
Fram kemur í skýrsludrögunum að í kjölfar bankahrunsins 2008 hafi íslensk stjórnvöld þurft að skera mikið niður í ríkisfjármálum, þá sérstaklega í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og menntakerfinu, þar sem þau kostuðu mesta peninga. Hagvöxtur hafi aukist undanfarin ár og nú sé staða efnahagsmála svipuð og hún var fyrir hrun. Þá hafi atvinnuleysi farið ört minnkandi. Verið sé að veita frekara fjármagn í velferðarkerfið, meðal annars í byggingu nýs Landspítala.
Þá segir að stjórnarskrá Íslands tryggi lýðræði og grundvallarmannréttindi eins og trúfrelsi, friðhelgi einkalífs og tjáningafrelsi. Farið er yfir það ferli sem hefur átt sér stað varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar og hvað þau mál séu stödd.
Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur starfað síðan 1994 og er hún sjálfstæð eining sem hefur það hlutverk að stuðla að og hafa eftirlit með mannréttindamálum hérlendis.
Jafnréttismál
Fram kemur að í ár séu 40 ár liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett á Íslandi. Landið sé oft sagt í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna, en þrátt fyrir það er enn langt í land. Kynbundinn launamunur er enn til staðar, sem og kynbundið ofbeldi og annað því tengt. Reynt hefur verið að vinna bug á kynjabilinu með kynjakvóta, jafnlaunavottunum og fleiru. Farið er yfir átak UN Women, HeforShe, sem stuðlaði að því að virkja karlmenn í jafnréttisbaráttunni.
Kynþáttafordómar
Unnið hefur verið að því hér á landi að útrýma kynþáttafordómum og rasisma. Fram kom í rannsókn árið 2012 að 93 prósent innflytjenda hér á landi höfðu orðið fyrir kynþáttafordómum einhvern tímann á ævinni. Hlutfallið var komið niður í 74 prósent tveimur árum síðar, 2014.
Réttindi hinsegin fólks
Ísland var eitt fyrstu ríkja heims til að samþykkja lög um hjónabönd samkynhneigðra. Þá hafa einnig verið sett lög um réttindi fólks sem hefur ekki kyngervi, það er að segja, að tryggja rétt fólks þó að það telji sig hvorki vera karl né kona, eða þá að það þurfi kynleiðréttingu.
Innflytjendur og hælisleitendur
Fjöldi innflytjenda á Íslandi hefur aukist töluvert undanfarin ár. Í skýrsludrögunum segir að árið 2010 hafi 6,8 prósent íbúa landsins verið innflytjendur, en árið 2015 var hlutfallið komið upp í 10 prósent. Þá hefur hælisleitendum að sama skapi fjölgað gífurlega undanfarin misseri, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Nýbúið er að setja ný Útlendingalög sem eiga að tryggja útlendingum aukin mannréttindi á Íslandi og auðvelda allt ferlið. Þó er enn langt í land og hefur innanríkisráðherra sagt að þessi mál séu í endalausri endurskoðun.
Ítarleg skýrsludrög
Einnig er farið yfir réttindi fatlaðs fólks, eldri borgara, barna og kvenna í skýrsludrögunum. Þá eru sérstakir kaflar um mansal, hatursáróður og pyntingar, og þær lausnir sem íslensk stjórnvöld hafa notað til að bregðast við þeirri þróun hér á landi.
Farið er yfir fangelsismálin og þá sérstaklega opnun nýja fangelsisins á Hólmsheiði. Talið er að það muni létta mikið á stöðunni. Einnig er farið yfir lagalegan rétt fólks til heilbrigðisþjónustu, menntunar og tjáningarfrelsis.
Óskað eftir athugasemdum
Sameinuðu þjóðirnar standa reglulega fyrir almennri úttekt á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum og var vinnuhópur skipaður til að halda utan um verkefnið hér á landi. Í vinnuhópnum eru fulltrúar innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis. Innanríkisráðuneytið stýrir verkefninu og ber ábyrgð á vinnslu þess en skýrslu Íslands á að skila eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi. Skýrslan má ekki vera lengri en 10.700 orð, er fram kemur á vef ráðuneytisins. Innanríkisráðuneytið óskar nú eftir því að almenningur og frjáls félagasamtök sendi inn athugasemdir vegna skýrsludraganna og að þær berist ekki síðar en 10. júlí næstkomandi.