Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um Alþingiskosningarnar 2013 var að miklu leyti drifin með fréttum af könnunum á fylgi framboða. Rannsókn sem gerð var á umfjöllun þrettán fjölmiðla mánuðinn fyrir kosningar sýnir að 29,8 prósent allra frétta höfðu úrslit kosninga sem aðaláherslu. Rannsóknin var birt á dögunum í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.
Umfangsmikil rannsókn
Alls voru 1.377 fréttir greindar af sjö vefmiðlum, úr tveimur dagblöðum, á tveimur útvarpsrásum og á tveimur sjónvarpsstöðvum. Í nærri þriðjungi allra þeirra frétta sem greindar voru var aðalumfjöllunarefnið niðurstöður kannanna á fylgi flokkanna. Í 7,2 prósent tilvika voru niðurstöður kannanna nefndar sem aukaatriði.
Í rannsókninni eru líklegar ástæður þess að svo mikill hluti frétta fjallar um kannanir sagðar vera að allir fjölmiðlar fjalla um allar kannanir, jafnvel þó þær hafi ekki verið gerðar fyrir viðkomandi miðil. Sem dæmi um þetta er þegar dagblað birtir niðurstöður könnunar að morgni og allir aðrir fjölmiðlar fjalla um sömu könnun þann daginn. Hver könnun fær því umfjöllun í flestum miðlum.
Gömul saga og ný
Umræða skapaðist í aðdraganda kosninganna 2013, rétt eins og fyrir forsetakosningarnar nú, um að kannanir réðu of miklu í þegar kæmi að umfjöllun fjölmiðla um frambjóðendur. Niðurstöður kannana eru látnar ráða því hvaða frambjóðendur eða framboð fá mesta athygli fjölmiðla og eru það þá oftast þau framboð sem njóta mests fylgis í könnunum sem fá umfjöllun og boð í umræðuþætti og kappræður.
Þannig var það til dæmis fyrir forsetakosningarnar í ár. Stöð 2 bauð öllum þeim frambjóðendum í umræðuþátt sem nutu meira en tveggja prósenta fylgis í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þar náði Halla Tómasdóttir inn í þáttinn með naumindum, en í kjölfarið fór fylgi við hana á flug og hún endaði sem næst vinsælasti frambjóðandinn í könnunum. RÚV skipti sínum seinni kappræðuþætti í tvennt með þeim hætti að þeir fjórir frambjóðendur sem hlutu mest fylgis í skoðanakönnunum komu fyrst og svo hinir fimm sem mældust með minna fylgi.