Fimm einstaklingar sækjast eftir formennsku í Íhaldsflokknum og forsætisráðherrastólnum, sem losnar í byrjun september eftir að David Cameron tilkynnti um afsögn sína eftir ósigur í Brexit-kosningunum fyrir viku.
Boris Johnson, þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri í London, tilkynnti hins vegar fyrir hádegið að hann myndi ekki sækjast eftir formennsku í breska Íhaldsflokknum, og þar með ekki forsætisráðuneytinu. Ákvörðun Johnson kemur verulega á óvart, enda var hann talinn einn líklegasti frambjóðandinn til þess að freista þess að taka við af David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra.
Theresa May innanríkisráðherra tilkynnti um framboð sitt í morgun en einnig hafa Andrea Leadsom orkumálaráðherra, Liam Fox, þingmaður og fyrrverandi varnarmálaráðherra, og Stephen Crabb, ráðherra atvinnu- og lífeyrismála, hafa þegar tilkynnt um framboð, en framboðsfresturinn rann út í dag.
Það var hins vegar framboð Michael Gove dómsmálaráðherra sem er sagt hafa haft mikil áhrif á ákvörðun Johnson um að fara ekki fram, en Gove kom mörgum á óvart með því að tilkynna um framboð í morgun. Búist hafði verið við því að hann myndi styðja Johnson til forystu í flokknum, og yrði sjálfur fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra, og myndi sem slíkur leiða viðræður við Evrópusambandið um útgöngu Breta þaðan.
„Ég hef ítrekað sagt að ég vilji ekki verða forsætisráðherra. Það hefur alltaf verið mín skoðun,“ sagði Gove meðal annars. Hins vegar hefðu atburðir síðustu daga haf mikil áhrif á hann. „Ég virði og dáist að öllum frambjóðendum sem sækjast eftir forystu. Sérstaklega vildi ég hjálpa til við að byggja upp lið að baki Boris Johnson svo að stjórnmálamaður sem barðist fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu gæti leitt okkur til betri framtíðar.“
Hann sagðist þó með semingi hafa komist að þeirri niðurstöðu að Boris geti ekki verið sá leiðtogi sem til þarf. Þess vegna hafi hann ákveðið að bjóða sig fram.
Eiginkonan lýsti yfir efasemdum um Boris
Eiginkona Gove, Sarah Vine, lýsti yfir efasemdum um Boris Johnson og vinsældir hans meðal flokksmanna Íhaldsflokksins og fjölmiðlaeigendanna Rupert Murdoch og Paul Dacre í tölvupósti frá því á þriðjudag. Póstinn ætlaði hún að senda manni sinum og tveimur ráðgjöfum hans, en hann fór óvart víðar og var komið til Guardian og fleiri fjölmiðla. Þar stóð meðal annars líka að það væri mikilvægt að Gove lýsti ekki yfir óskoruðum stuðningi við Boris Johnson nema gegn því að fá mjög skýrt loforð um stöðu sína. „Ekki gefa neitt eftir. Vertu þrjóskasta útgáfan af þér. Gangi þér vel,“ segir svo í póstinum.
Krísa í Íhaldsflokknum
Ákvörðun Gove í morgun sýnir að skuggi hefur fallið á vináttu og samstarf Gove og Johnson, sem höfðu barist saman fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu. Ásakanir ganga á báða bóga úr herbúðum þeirra í breskum fjölmiðlum. Á fyrsta degi virðast breskir fjölmiðlar ætla að helsta baráttan verði á milli Theresu May og Michael Gove.
Íhaldsmenn ætla að kjósa sér nýjan leiðtoga í byrjun september, og flokkurinn virðist vera í krísu, rétt eins og Verkamannaflokkurinn, þar sem allt er í kaldakolum.