Sigurður Aðalsteinsson, faðir knattspyrnumannsins Gylfa Sigurðssonar, segir það sína tilfinningu að sonur sinn verði ekki seldur frá Swansea fyrir minna en 24 milljónir punda, um fjóra milljarða króna. Þetta er haft eftir honum í Viðskiptablaðinu í dag. Þegar Gylfi var seldur til Swansea árið 2014 var kaupverðið um tíu milljónir punda en hann hefur alls verið seldur fyrir um fimm milljarða króna milli félaga á ferli sínum, og er langdýrasti íslenski leikmaðurinn frá upphafi. Verði Gylfi keyptur á því verði sem faðir hans nefnir í Viðskiptablaðinu er ljóst að um verður að ræða langstærstu sölu á íslenskum knattspyrnumanni sem nokkru sinni hefur átt sér stað. Sigurður reiknar þó með að Gylfi skrifi frekar undir nýjan samning hjá Swansea en að hann færi sig um set.
Áhuginn á íslenskum knattspyrnumönnum og íslenskri knattspyrnu hefur stóraukist í kjölfar frammistöðu landsliðsins á EM í Frakklandi. Greint var frá því víða í fjölmiðlum í gær að Ragnar Sigurðsson sé m.a. undir smásjá stórliða í ensku úrvalsdeildinni. Þar hafa Tottenham, Leicester og Liverpool verið nefnd til sögunnar.
Viðskiptablaðið fjallar um þann hagnað sem ýmsir hafa af árangrinum og greinir m.a. frá því að Knattspyrnusamband Íslands hafi þegar tryggt sér að jafnvirði um 1,9 milljarða króna í verðlaunafé frá Evrópska knattspyrnusambandinu UEFA. Takist íslenska liðinu að sigra Frakka á sunnudaginn kemur sú upphæð til með að hækka í 2,5 milljarða króna. Þá segir að teikn séú á lofti að landkynningin sem fylgi frammistöðunni muni geta haft umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu hérlendis og rætt er við umboðsmanninn Ólaf Garðarsson og Sigurð Aðalsteinsson, föður Gylfa Sigurðssonar, um þau áhrif sem árangur landsliðsins muni hafa á þá stráka sem spili vel á mótinu. Erfitt sé að segja með einhverri vissu um hversu mikið áhrifin verði á verð og laun leikmanna en Ólafur segir t.d. að ef einhvert lið vilji kaupa Ragnar Sigurðsson frá Krasnodar, þar sem hann spilar í dag, muni það nær örugglega þurfa að greiða á bilinu fimm til sjö milljónir punda fyrir, þrátt fyrir að Ragnar sé orðinn þrítugur.
Flugsæti og fjárhagsleg eftirköst
Morgunblaðið fjallar líka um EM-ævintýrið í blaði dagsins. Þar er meðal annars greint frá því að mikill fjöldi flugsæta til Frakklands sé í boði um helgina svo þeir íslensku stuðningsmenn sem vilji geti komist þangað til að sjá leik Íslands og heimamanna á sunnudag. Í frétt Morgunblaðsins segir að bæði Icelandair og WOW muni fjölga ferðum og að Icelandair hafi um tíma verið með það í bakhöndinni að leigja breiðþotu fyrir verkið. Þá séu allskyns aðrir aðilar að bjóða upp á sérferðir, m.a. knattspyrnumaðurinn Grétar Sigfinnur Sigurðsson, Eskimo Travel, Netmiði og auglýsingastofan 23 og ferðaþjónustufyrirtækið Circle Air.
Morgunblaðið beinir einnig sjónum sínum að fyrirsjáanlegum eftirköstum hins mikla stuðnings við íslenska landsliðið á fjárhag stuðningsmanna. Í blaði dagsins er rætt við Ástu Sigrúnu Helgadóttur, umboðsmann skuldara, sem segir að leiða megi líkur á því að einhverjir eigi í greiðsluvandræðum að loknu móti.
Íslendingar hafa lagt sig alla fram í stuðningi við íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í kjölfar velgengni þess í Frakklandi. Margir hafa óvænt keypt sér flugfar til Frakklands til að missa ekki af tækifærinu að sjá landsliðið spila á stórmóti. Reynsla fyrri ára sýni að eftir sumar- og jólafrí fjölgi umsóknum hjá embættinu, en þær hafa verið um 130 talsins á mánuði á þessu ári. Þá hefur þegar komið fram í fréttum að kortanotkun Íslendinga í Frakklandi var allt að 1.200 prósent meiri frá miðjum júní í ár en hún er þar í landi á meðalári.