165 manns eru látnir eftir sjálfsmorðssprengjuárás í höfuðborg Íraks, Bagdad, í gær. Búið er að lýsa yfir þriggja daga þjóðarsorg í ríkinu vegna dauðsfallanna. 225 til viðbótar særðust í árásinni.
Sprengiefnum hafði verið komið fyrir í vörubíl sem var sprengdur í loft upp í Karrada-hverfinu í Bagdad, þar sem fólk var að versla fyrir Eid al-Fitr, hátíðina sem markar endalok Ramadan. Heilu fjölskyldurnar eru sagðar hafa látist.
Árásin er talin sú mannskæðasta í Írak frá árinu 2007. Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Aðeins er vika liðin frá því að stjórnarherinn í Írak náði borginni Fallujah aftur á sitt vald, en borgin var eitt helsta vígi hryðjuverkasamtakanna.
Segjast bera ábyrgð á árás í Bangladess líka
Hryðjuverkasamtökin hafa einnig sagst bera ábyrgð á árás á kaffihús í Dhaka, höfuðborg Bangladess, um helgina. Þar réðust vopnaðir menn inn og héldu fjölda fólks föngnum þar. Yfir tuttugu gíslanna voru myrtir, en margir voru erlendir ríkisborgarar.
Stjórnvöld í Bangladess hafa neitað því að mennirnir hafi verið tengdir Íslamska ríkinu. Þeir hafi verið meðlimir í Jamaeytul Mujahdeen Bangladesh (JMB) hryðjuverkasamtökum sem hafi engin tengsl við Íslamska ríkið.
Mennirnir sem gerðu árásina í Dhaka voru ungir, tilheyrðu vel stæðum fjölskyldum og voru vel menntaðir, segja yfirvöld. Sex voru drepnir þegar lögreglan réðist inn á kaffihúsið en tveir eru í haldi lögreglunnar.