Franska lögreglan rannsakar nú hvernig staðið var að miðasölu til Íslendinga, sem aldrei fengu miða sína afhenta, og misstu því af leik Íslands og Frakklands, í átta liða úrslitum EM í fótbolta í París í gær. Þetta kemur fram á vef Vísis.
Fulltrúar ríkislögreglustjóra í París, sem starfað hafa í kringum Evrópumótið í knattspyrnu, segja engan hafa verið handtekinn í tengslum við málið, en tugir Íslendinga fengu ekki afhenta miða á leikinn, þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá.
Í viðtali við RÚV, segir Flóki Guðmundsson, einn þeirra sem ekki fékk afhenta miða og missti því af leiknum, að hann hafi mest fundið til með börnum sem voru á svæðinu, og voru grátandi af sorg yfir því að hafa misst af leiknum.
Mikill hiti var í fólki, sem beið eftir því að fá afhenta miða, og lá við slagsmálum, samkvæmt lýsingum fólks sem var á staðnum.
Víðir Reynisson, öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gærkvöldi að verið sé að skoða málið, en franska lögreglan sé með málið á sínu borði.
Almenna miðasalan á leiki á EM er eingöngu hjá evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, og var reynt að búa þannig um hnútana, að ekki myndaðist stór eftirmarkaður með miða.
Björn Steinbekk, sem seldi fólki miða sem aldrei voru afhentir, segist í samtali við RÚV ætla að sjá til þess að allir miða verði endurgreiddir. Hann segir miðasölustjóra hjá UEFA ekki hafa staðið við orð sín, og því hafi þessi vandi skapast.
Hann segist hafa reynt að bjarga því sem bjargað varð, en því miður hafi það ekki gengið. Þá hafi bróðir hans verið rændur miðum, sem hefði gert stöðuna enn verri. „Við náðum að afhenda tæplega 300 miða og eftir það kom franska lögreglan og tók mig til hliðar ásamt íslensku lögreglunni og aðstoðaði mig við að koma út þeim miðum sem ég hafði eftir. Það voru kannski 80, 90 miðar. Á sama tíma lentum við í því að bróðir minn var rændur einhverjum 50, 60 miðum sem hann var með í bakpoka af Íslendingum sem voru orðnir verulega órólegir og stressaðir, skiljanlega. Ástandið í gær var í rauninni hræðilegt,“ sagði Björn í viðtali við RÚV.
Uppfært: UEFA kannast ekki við þann tengil sem, Björn Steinbekk, hefur nefnt, samkvæmt frétt RÚV, frá því í dag. Svo virðist sem Björn hafi verið blekktur.