67 þúsund Íslendingar fóru til útlanda í gegnum Keflavíkurflugvöll í júní-mánuði, sem er met. Aldrei hafa brottfarir Íslendinga mælst fleiri í einum mánuði frá því að talningar Ferðamálastofu hófust. Áður var metið slegið í júní 2007, þegar 54.800 Íslendingar fóru til útlanda.
Ferðamálastofa telur að ekki sé ólíklegt að Evrópumótið í fótbolta hafi haft talsverð áhrif á tölurnar. Tölur frá Knattspyrnusambandi Íslands benda til þess líka, enda er talið að á bilinu 8-10.000 Íslendingar hafi verið á hverjum leik Íslands í Evrópumótinu.
„Í því sambandi er vert að slá þann varnagla að hugsanlega er óvenju algengt að fleiri en eina brottför sé að ræða hjá sömu einstaklingum. Slíkt er þó ekki hægt að segja fyrir um með neinni vissu,“ segir Ferðamálastofa. Fjölmargir fóru aftur til Frakklands með ýmsum leiðum eftir að Ísland komst upp úr riðli sínum á EM og einnig þegar liðið komst í átta liða úrslit á mótinu.
186 þúsund ferðamenn á Íslandi
186 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júní samkvæmt talningum Ferðamálastofu, eða nærri 50 þúsund fleiri en í júní í fyrra. Erlendum ferðamönnum heldur því áfram að fjölga, og aukningin er 36,8% á milli ára. Það sem af er árinu hafa tæplega 700 þúsund erlendir ferðamenn komið til landsins, sem er 183 þúsundum og 35,8% fleiri en í fyrra.
Rúmlega helmingur þeirra sem komu í júní voru Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Bretar og Kanadamenn. Bandaríkjamenn voru tæplega 30% allra ferðamanna. Hlutfallslega var fjölgunin mest meðal Kanadamanna, en ferðamannafjöldinn þaðan rúmlega tvöfaldaðist og voru þeir sjö prósent ferðamanna hér á landi.