Isavia hefur lokað norðaustur-suðvestur flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli samkvæmt fyrirmælum frá innanríkisráðuneytinu í kjölfar dóms Hæstaréttar um málið. Isavia hefur sent innanríkisráðuneytinu og Reykjavíkurborg staðfestingu á þessu. Samgöngustofu hefur verið falið að endurskoða skipulag Reykjavíkurflugvallar í kjölfar lokunarinnar í samræmi við lög um loftferðir.
Fyrirmæli ráðuneytisins og staðfesting Isavia á lokuninni voru send 30. júní. Í skilaboðum sem flugmönnum er skylt að skoða áður en farið er um flugvöllinn, kemur fram að flugbrautinni hafi verið lokað endanlega. Skilaboðin um endanlega lokun, svokölluð NOTAM, eru dagsett 4. júlí.
Kjarninn greindi frá því á dögunum að flugbrautinni, sem í umræðunni um lokun flugvallarins í Vatnsmýri hefur hlotið heitið „neyðarbrautin“, hafi verið lokað í allt sumar, eða þar til 15. september. Ástæðan hafi ekki verið að beiðni ráðuneytisins heldur vegna þess hversu lítið brautin er notuð á sumrin. Douglas DC3-flugvél Icelandair hafi þess vegna verið lagt við brautarendann í norðri þar sem framkvæmdir eru hafnar við fyrirhugaða uppbyggingu íbúðahverfis í Vatnsmýrinni.
Hæstiréttur staðfesti á dögunum dóm héraðsdóms Reykjavíkur um að innanríkisráðuneytinu væri skylt að loka flugbrautinni í samræmi við samkomulag sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra flugmála, gerði við Reykjavíkurborg haustið 2013. Þar var því lofað að flugbrautinni yrði lokað. Reykjavíkurborg réðst í kjölfarið í uppbyggingu íbúðahverfis við nyrðri enda brautarinnar. Þegar Ólöf Nordal settist svo í stól innanríkisráðherra var ákvörðuninni um lokun flugbrautarinnar snúið við. Reykjavíkurborg höfðaði þá mál við ríkið sem hæstiréttur hefur dæmt í eins og áður segir.