Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, telur það ekki vandamál að næsti forseti Íslands verði utan þjóðkirkjunnar. Í samtali við Kjarnann segir hún að þau Guðni Th. Jóhannesson hafi rætt saman og hvorugt þeirra telji að það eigi eftir að há þeim að hann standi utan trúfélaga. Guðni skráði sig úr kaþólsku kirkjunni árið 2013 í kjölfar þess að kirkjan hylmdi yfir kynferðisbrot innan hennar. Guðni verður fyrsti forseti lýðveldisins sem er ekki skráður í þjóðkirkjuna.
Agnes sagði í Kjarnanum í janúar að hún teldi óeðlilegt ef næsti forseti væri utan kirkjunnar. Nú, hálfu ári seinna, segist hún ekki vera búin að skipta um skoðun, þó að þetta sé ekki atriði til þess að gera ágreining út af.
„Það er ríkir trúfrelsi hér á landi og hver og einn ræður því hvar hann eða hún er skráður,“ segir Agnes. „Þjóðin hefur nú kosið nýjan forseta og þetta er niðurstaðan.“
Hittust fyrir tilviljun á guðsþjónustu
Eins og áður segir hafa Agnes og Guðni átt fund saman en þau hittust fyrir tilviljun í Dómkirkjunni aftur í fyrradag við guðsþjónustu.
„Þetta er ekki vandamál heldur staðreynd,“ segir Agnes. „Svona er þetta og ég sé engin merki þess að samleið okkar embætta geti ekki orðið farsæl.“
Guðni sagði í samtali við Kjarnann í maí, þegar hann var í kosningabaráttu, að það yrðu engin vandræði fyrir hann að sinna skyldum sem lúti að kirkjunni.
„Nái ég kjöri, verður mér bæði ljúft og skylt að ganga við hlið biskups við setningu Alþingis og hlýða á predikun míns góða vinar Sveins Valgeirssonar dómkirkjuprests,” sagði Guðni. „Ég er langt frá því að vera trúlaus og kristin gildi eru undirstaða okkar lýðræðis og velferðarsamfélags.“
Agnes segist óska Guðna til hamingju með að hafa náð kjöri.
„Auðvitað væntum við mikils af honum eins og allra í þessu embætti. Ég bið honum blessunar í hans störfum.“