Mannréttindastofnun Íslands mun uppfylla kröfur samninga Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, verði frumvarp innanríkisráðherra samþykkt á Alþingi. Drög að frumvarpinu voru birt á vef ráðuneytisins fyrir helgi til umsagnar. Ráðherrann Ólöf Nordal hyggist mæla fyrir frumvarpinu þegar þing kemur saman á ný 15. ágúst, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Stofnunin mun uppfylla skilyrði Parísarviðmiðanna sem samþykkt voru á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 1993. Þar er kveðið á um að sjálfstæð stofnun, óháð stjórnvöldum, vinni að eflingu og vernd mannréttinda í hverju ríki. Stofnunin á að veita framkvæmdarvaldinu, löggjafarvaldinu og öðrum aðilum ráðgjöf um mannréttindamál í landinu og vinna að „virkri framkvæmd mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samræmingu innlendrar réttarframkvæmdar við þá,“ eins og segir í athugasemdum við frumvarpið.
Íslensk stjórnvöld myndu með stofnun mannréttindastofnunar taka stórt skref í fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þeim samningi, sem undirritaður var árið 2007, er í fyrsta sinn í alþjóðasamningi kveðið á um að sérstök mannréttindastofnun hafi eftirlit með framkvæmd samningsins. Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks hefur enn ekki farið alla leið í gegnum þingið, en frumvarpi um breytingu á lögum til að undirbúa fullgildingu samningsins var dreift á Alþingi í lok árs 2014. Önnur umræða á enn eftir að fara fram um þær lagabreytingar.
Mannréttindastofnunin mun heyra undir Alþingi og hafa bæði fjáhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði, þe. með eigið starfslið og starfstöð. Íslensk stjórnvöld hafa meðal annars fengið tilmæli frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og mannréttindanefd Sameinuðu þjóðanna um að mannréttindastofnun væri ábótavant, eftir allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi árið 2012. Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að mannréttindaskrifstofa hafi sinnt sambærilegu hlutverki og sú mannréttindastofnun sem lagt er til að stofnuð verði, en að skrifstofan hafi ekki notið fullkomins sjálfstæðis eða verið tryggt fjármagn af ríkinu.
Vinna við sambærilega stofnun sem myndi uppfylla skilyrði Parísarviðmiðanna var hafin seint á síðasta kjörtímabili. Í frétt Fréttablaðsins í lok árs 2012 er fjallað um áform Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, um að koma slíkri stofnun á fót. Vinnunni lauk hins vegar ekki fyrir kosningarnar 2013.
Á hinum Norðurlöndunum hefur sambærilegum stofnunum verið komið á fót, allstaðar nema í Svíþjóð þar sem verkefnum stofnunarinnar er dreift á nokkur sjálfstæð embætti innan sænsku stjórnsýslunnar. Hugmyndir innanríkisráðuneytisins íslenska um mannréttindastofnun byggja að miklu leyti á fyrirmynd norsku stofunarinnar. Þar starfar sambærileg stofnun undir Oslóarháskóla og sinnir verkefnum líkt og mælt er fyrir um í Parísarviðmiðunun.
Innanríkisráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum og athugasemdum við frumvarpið sem þurfa að berast til og með 25. júlí.