Margfalt fleiri sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi á fyrri helmingi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. 274 einstaklingar sóttu um vernd í ár, samanborið við 86 einstaklinga á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Útlendingastofnun. Umsækjendum um vernd fór að fjölga verulega í ágúst í fyrra, og sú þróun hefur haldið áfram. Útlendingastofnun gerir ráð fyrir að á bilinu 600 til 1000 einstaklingar muni óska verndar á þessu ári.
Flestir frá Balkanskaga
Stór hluti þeirra sem sóttu um vernd hérlendis er sem fyrr fólk frá ríkjum Balkanskagans. Stærsti hópurinn eru Albanir, en 69 Albanir sóttu um vernd á fyrstu sex mánuðum ársins. Næstfjölmennasti hópurinn eru Makedónar, 35 sóttu um vernd. Samtals komu 43% umsækjendanna frá Balkanskaganum.
25 einstaklingar frá Írak sóttu hér um vernd, 19 frá Sýrlandi og 12 frá Palestínu. Ellefu komu frá Nígeríu, átta frá Íran og sjö frá Afganistan.
53 af 310 fengu vernd á Íslandi
310 mál umsækjenda um vernd voru afgreidd á fyrri hluta ársins, sem eru næstum jafnmörg mál og voru afgreidd allt árið í fyrra. Af þessum 310 málum var um helmingur, eða 159 mál, tekinn til efnislegrar meðferðar.
Af þessum 159 var 106 synjað en 53 einstaklingar fengu vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Sautján einstaklingar frá Írak fengu vernd hér, tíu frá Íran og níu frá Sýrlandi. Fimm Afganir fengu vernd á Íslandi. Af þeim sem var synjað um vernd hérlendis voru 60 Albanir og 21 frá Makedóníu. Fjórum Kósóvó-búum og fjórum Serbum var neitað um vernd, sem og þremur Úkraínumönnum. Einstaklingum frá Tyrklandi, Nígeríu, Marokkó, Króatíu, Íran og Afganistan var neitað um vernd á Íslandi, sem og einum ríkisfangslausum einstaklingi.
Þá vekur athygli að tveimur Bandaríkjamönnum, tveimur Kandamönnum og einum Breta var synjað um vernd hér á landi.
103 vísað burt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar
103 einstaklingum var vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þannig að Evrópuríki sem þeir komu til áður en til Íslands var komið taki mál þeirra fyrir. Fjórtán einstaklingar höfðu fengið vernd í öðru ríki og 34 drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.
Stærsti hópurinn sem var sendur til annars Evrópuríkis á grundvelli reglugerðarinnar voru Írakar, 20 talsins. Sextán Albanir voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og fimmtán Afganir. Fjórtán Gana-búar voru sendir burt á þessum grundvelli og níu Nígeríumenn. Sex Íranir voru á meðal þeirra sem voru sendir til annarra Evrópuríkja á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Miklu fleiri karlar en konur
Miklu fleiri karlar en konu sóttust eftir vernd. 75% umsækjenda voru karlar og 25% konur. Í fjölmennasta hópnum, meðal Albana, voru 46 karlar og 13 konur. Þá sóttu 20 karlar frá Írak um vernd en tvær konur, og tólf karlar frá Sýrlandi en þrjár konur.
Þá voru 81% umsækjenda fullorðnir en 19% börn. Fimm fylgdarlaus ungmenni sóttu um vernd á fyrri helmingi ársins.
Kærunefnd útlendingamála kvað upp 148 úrskurði á fyrri hluta ársins og var í 82-83% tilvika sammála ákvörðunum Útlendingastofnunar og staðfesti þær. 82% tilvika þar sem mál voru afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 83% þegar mál höfðu verið tekin til efnismeðferðar.