Rannsóknir á sigi öskjunnar í Bárðarbungu í aðdraganda og á meðan Holuhraunsgos stóð varpa nýju ljósi á orsakir stærstu hraungosa Íslandssögunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein hóps vísindamanna í tímaritinu Science sem kom út í gær.
Eldgosið í Holuhrauni er að stærsta sem orðið hefur á Íslandi í tvær aldir og þarf, samkvæmt tilkynningu á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands að leita aftur til Skaftárelda til að finna stærra eldgos. Öskjusigið í Bárðarbungu er það fyrsta sem hægt hefur verið að mæla nákvæmlega á meðan því stóð vegna þess að vísindamenn höfðu komið fyrir fjölda mælitækja í og við öskjuna.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hraunið sem kom upp í Holuhrauni kom úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu. Jarðskjálftahrina 16. ágúst 2014 bendir til þess að kvika hafi brotist úr kvikuhólfinu og myndað kvikugang ofar í jarðskorpunni til norðausturs. Nokkrum dögum síðar hófst öskjusigið í Bárðarbungu þegar þrýstingur í kvikuhólfinu hafði fallið verulega.
Í tvær vikur braut kvikan í kvikuganginum sér leið upp á yfirborðið og kom upp í Holuhrauni 31. ágúst. Leiðin var 48 kílómetra löng úr kvikuhólfinu undir Bárðarbungu og réðst öskjusigið aðallega af eiginleikum þessa kvikugangs og þunga „þaksins“ ofan á kvikuhólfinu. Hægt og rólega dró úr hraunrennsli á yfirborðinu vegna þess að þrýsimunurinn milli Bárðarbungu og Holuhrauns minnkaði.
Þessi atburðarás er, að mati vísindamannanna, talin varpa nýju ljósi á orsakir stærstu hraungosa í Íslandssögunni; Rekja megi stærstu eldgosin til öskjusigs í megineldstöðvum á Íslandi samfara gliðnunarhrinum, þe. þegar jarðskorpuflekar eru á hreyfingu.
Undanfarna mánuði hefur jarðskjálftavirkni aukist jafnt og þétt í Bárðarbungu. Óvíst er hvort það sé undanfari frekari eldsumbrota í þessari víðfemustu megineldstöð á Íslandi en niðurstöður rannsóknarinnar sem birt er í Science ætti að gefa vísindamönnum betri skilning á virkni eldstöðvarinnar.
Við sigið í öskju Bárðarbungu myndaðist djúp lægð á ísbreiðunni yfir öskjunni. Sú lægð hefur grynnkað um átta metra á ári síðan í umbrotunum veturinn 2014-2015, vegna innflæðis íss og snjósöfnunar. Samkvæmt samantekt frá fundi vísindamannaráðs almannavarna í lok júní eu líklegustu skýringar á sjálftavirkninni og aflögun öskjunar innflæði kviku í kvikuhólfið undir öskjunni, sama kvikuhólf og spýtti kviku í Holuhraunsgosi. Þetta sé eðlileg hegðun eldstöðva í kjölfar eldgoss.
Skaftáreldar árið 1783-1784 eru meðal stærstu eldgosa í Íslandssögunni. Í því eldgosi urðu Lakagígar til, eftir fjallinu Laka sem er í næsta nágrenni. Þá opnaðist gígaröð vestan Vatnajökuls. Vísindamenn telja nú að þar hafi orðið svipuð atburðarás og í eldgosinu í Holuhrauni. Öskjusig hafi orðið í Grímsvötnum um leið og kvika úr kvikuhólfinu undir Grímsvötnum hafi brotið sér leið á yfirborðið vestan jökulsins.
Skaftáreldar eru taldir hafa verið orsök einna mestu þjóðfélagsbreytinga í Íslandssögunni. Sökum eldgossins; öskufalls og gosmóðu urðu miklar hörmungar á Íslandi sem einu nafni eru kölluð Móðuharðindin. Margir flúðu uppskerubrest og eymd á Íslandi hvort sem var erlendis eða innanlands. Eldgosið hafði einnig áhrif á veðurfar annarstaðar á norðurhveli jarðar. Þess vegna er til dæmis talið að Skaftáreldar hafi verið ein orsök þess að uppskerubrestur varð á meginlandi Evrópu í aðdraganda frönsku byltingarinnar.