Hergagnamarkaður heimsins velti 65 milljörðum dollara árið 2015. Markaðurinn hefur aldrei velt jafn miklum fjármunum. Lang stærsti kaupandinn var Sádí-Arabía sem stækkaði vopnabúr sitt gríðarlega, eða um rúmlega níu milljarða Bandaríkjadala.
Sádí-Arabía leiðir hernaðarbandalag ríkja sem vilja hafa áhrif á útkomu borgarastyrjaldarinnar í Jemen. Til þess þurfti þetta víðfemasta land á Arabíuskaga að stækka vopnabúrið sitt. Aukning innflutnings Sádí-Arabíu á hergögnum nam um það bil 50 prósent milli ára. Annars hafa innkaup vopna aukist víða í Mið-Austurlöndum og í Suðaustur-Asíu.
Viðbótin í vopnabúr Sáda árið 2015 eru meðal annars orustuþotur, F-15 herflugvélar, þyrlur, nákvæm flugskeyti, flýgildi og eftirlitsbúnaður. Ótryggt ástand í Mið-Austurlöndum er einn hvatanna fyrir ríki til að auka við vopnabúr sitt. Írakar hafa eytt miklu í hernað undanfarin ár og gerðu það einnig í fyrra. Íraksher berst gegn hryðjuverkamönnum í norðanverðu landinu.
Velta hergagnamarkaðarins jókst um 10 prósent á milli ár, samkvæmt árlegri úttekt. Markaðurinn hefur ekki vaxið jafn mikið milli ára síðastliðinn áratug. Indland var næst stærsti kaupandi vopna árið 2015; verslaði fyrir nærri 4,5 milljarða dollara.
Stærstu útflytjendur vopna í heiminum eru Bandaríkin og Rússland. Samkvæmt árbók Alþjóðafriðarannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi fyrir árið 2015 sem kom út í ár bera Bandaríkin ábyrgð á 31 prósent alls útflutnings hergagna á árunum 2010 til 2014. Rússar bera ábyrgð á 27 prósent á sama tímabili. Þar á eftir koma Kína, Þýskaland og Frakkland með fimm prósent hlutdeild hvert.