Tífalt fleiri Íslendingar leituðu eftir gistingu í Frakklandi á fyrri hluta þessa árs en í fyrra á vef Hotels.com, enda náði íslenska landsiðið í knattspyrnu langt á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Frakklandi í júní. Samanborið við önnur lið sem náðu jafn langt og Ísland í keppninni jukust leitir Íslendinga mest.
Að jafnaði fjölgaði leitum að hótelherbergjum í Frakklandi um 960 prósent á tímabilinu 1. janúar 2016 til 15. júlí 2016, miðað við sama tímabil í fyrra. Lang mest var aukningin dagana 22. til 28. júní, fyrir leiki Íslands gegn Austurríki og Englandi. Þá sextánfaldaðist eftirspurninn milli ára.
Það þarf ekki að koma á óvart að hóteleftirspurn aukist þegar svo stórt alþjóðlegt mót á sér stað en í tilkynningu frá Hotels.com á Íslandi segir að aukning hóteleftirspurnar íslenskra stuðningsmanna hafi verið næstum því tvöfalt meiri en allra annara þjóða sem komust í átta liða úrslit mótsins. Stuðningsmenn Wales og Póllands komu þar næst á eftir.
Íslendingar höfðu lang mestan áhuga á París sem áfangastað í leitum á vef Hotels.com. Þar spilaði íslenska landsliðið tvo leiki; einn gegn Austurríki og hinn gegn Frökkum. Áætlað var að meira en 30.000 íslenskir stuðningsmenn landsliðsins hafi ferðast til Frakklands til að sjá einn eða fleiri leiki af þeim fimm sem íslenska liðið spilaði.