Halli á lífeyrisskuldbindingum breska ríkisins jókst í 935 milljarða punda í kjölfar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar og áhrifa niðurstöðunnar á breskt efnahagslíf. Ávöxtunarkrafa á skuldabréf útgefin af breska ríkinu, og önnur bresk fyrirtækjaskuldabréf, hefur hríðfallið í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. Bloomberg greinir frá þessu.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni valdi meirihluti kjósenda að Bretland skyldi segja sig úr Evrópusambandinu. Samkvæmt útgönguspám var það helst eldra fólk sem kaus að yfirgefa sambandið; 60 prósent fólks eldra en 65 ára kaus að slíta samstarfinu. Lífeyrisaldur í Bretlandi er 65 ár.
Í kjölfar niðurstöðunar 23. júní féll gengi breska pundsins gagnvart bandaríkjadal, og hefur ekki verið lægra í áratugi. Fyrstu efnahagsgreiningar sem gerðar hafa verið eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna benda til þess að samdráttur breska hagkerfisins hafi ekki verið meiri og hraðari síðan í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Halli á lífeyrisskuldbindingum breska ríkisins hækkaði um 80 milljarða punda á einum sólarhring eftir að niðurstaða Brexit-atkvæðagreiðslunnar urðu ljósar; fóru úr 820 milljörðum í 900 milljarða. Áður en júnímánuður var úti hafði hallinn aukist í 935 milljarða punda og hefur aldrei verið meiri.