Tyrknesk stjórnvöld ætla að loka tugum tyrkneskra fjölmiðla á næstunni. Flestir eru litlir svæðisfjölmiðlar, en einnig nokkrir stærri. MBL telur upp þrjár fréttastofur, sextán sjónvarpsstöðvar, 45 dagblöð og fimmtán tímarit.
Valdaránstilraun var gerð í landinu um miðjan júlí og eftir hana hafa hátt í 300 manns látið lífið og rúmlega 2.000 manns særst. Þúsundir hafa verið handteknir; hermenn, dómarar, hershöfðingjar, blaðamenn og almenningur. Búið er að greina frá því að 8.651 hermaður hafi tekið þátt í valdaránstilrauninni, með 35 flugvélum, 37 þyrlum, 74 skriðdrekum og þremur skipum.
Óskar eftir fundi vegna ástandsins
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, hefur óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta um neyðarástand og þróun mála í Tyrklandi. Hún segir í tilkynningu að það sé rík ástæða til að kalla nefndina saman til að ræða ástandið og möguleg viðbrögð við því.
Þingflokkur VG hefur fordæmt stöðu mála í Tyrklandi, fjöldahandtökur þar í landi, uppsagnir þúsunda óbreyttra borgara og skerðingu á ferðafrelsi á grundvelli pólitískra skoðana. Flokkurinn leggur áherslu á að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, nýti hvert tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að koma skýrt á framfæri áhyggjum íslenskra stjórnvalda og íslensks almennings af mannréttindabrotum í Tyrklandi.
Lilja hefur sagt að staðan sé alvarleg og grannt sé fylgst með þróun mála.