Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, fór ekki að stjórnsýslulögum í fyrra í ráðningaferli nýs lögreglufulltrúa til embættisins. Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis fór lögreglustjórinn ekki að lögum þegar hann neitaði umsækjanda um starfið um ákveðin gögn.
Forsaga málsins er sú að Páley auglýsti starf lögreglufulltrúa til umsóknar í júní í fyrra. RÚV greinir frá því að 17 umsóknir hafi borist, en fimm boðaðir í viðtal. Einn umsækjendanna sem ekki var boðaður í viðtal kvartaði í kjölfarið til umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Kvörtunin byggði meðal annars á þeim forsendum að umsækjendanum var synjað um aðgang að ferilskrá þeirra sem boðaðir voru í viðtöl en fengu ekki starfið.
Í áliti umboðsmanns segir að slík gögn geti skipt verulegu máli við úrlausn svona ágreinings. Lögreglustjóranum hafi verið óheimilt að taka ákvörðun út frá þeim án þess að bera þær undir þann sem sækir um starfið.
„Það er einnig niðurstaða mín að synjun lögreglustjórans á að veita aðgang að hluta umbeðinna gagna, þ.e. gögnum um aðra umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal en þann sem var ráðinn í starfið, hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli enda fór atviksbundið mat á gögnunum ekki fram eins og 17. gr. stjórnsýslulaga áskilur, sbr. einnig meginreglu 2. mgr. 16. gr. sömu laga.“
Þá segir einnig að andmælaréttur hafi ekki verið virtur.
Páley hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið eftir að greint var frá því að embættið í Vestmannaeyjum ætlaði ekki að tilkynna fjölmiðlum um fjölda kynferðisbrota á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr en einhvern tímann eftir Verslunarmannahelgi. Embættið er ekki með sömu verklagsreglur og ríkislögreglustjóri mælist til, en einungis eitt annað lögregluumdæmi vinnur með sama hætti, Lögreglan á Suðurlandi.