Guðni Thorlacius Jóhannesson er orðinn forseti Íslands, sá sjötti í lýðveldissögunni. Guðni var settur inn í embætti við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu.
Guðni hóf ræðu sína á því að þakka fyrir traustið sem honum hafi verið sýnt með kjörinu í embættið og sagðist taka við því með auðmýkt í hjarta. „Ég mun og vil þiggja ráð og leiðsögn frá ykkur öllum, fólkinu í landinu.“
Hann sagðist mundu vekja máls á því sem honum búi í brjósti. Hann ræddi um ýmis mál, það að á Íslandi ætti enginn að líða sáran skort, og um mikilvægi heilbrigðiskerfisins og þess að allir hefðu að því jafnan aðgang. Hann talaði um nauðsyn þess að skila landinu áfram til næstu kynslóða. Jafnréttismál og menntamál komu einnig við sögu og forsetinn vitnaði einnig í Spilverk þjóðanna og sagði: „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Ein lítil býfluga afsannar það. Guð hjálpar þeim sem hjálpast að.“
Hann gerði fjölmenningu einnig að umtalsefni, og það fólk sem býr á Íslandi þótt það kunni litla eða enga íslensku. Íslendingar séu ekki eins einsleitir og áður fyrr hafi virst. „Við játum ólík trúarbrögð, stöndum sum utan trúfélaga, við erum ólík á hörund, við getum heitið erlendum eiginnöfnum, þúsundir íbúa þessa lands eiga sér erlendan uppruna og tala litla eða enga íslensku en láta samt gott af sér leiða hér. Við lifum tíma fjölbreytni og megi þeir halda áfram þannig að hver og einn geti rækt sín sérkenni, látið eigin drauma rætast en fundið skjól og styrk í samfélagi manna og réttarríki hér á landi.“
Hann sagðist munu víkja oft að ýmsum samfélagsmálum á forsetastóli. Hann sagðist vita að stjórnmálamennirnir beri þau einnig fyrir brjósti. „Þeirra er ábyrgðin og þeir setja lögin. Þau breytast í tímans rás. Það á líka við um stjórnarskrá okkar, grunnsáttmála samfélagsins. Geti þingið ekki svarað ákalli margra landsmanna og yfirlýstum vilja stjórnmálaflokka um endurbætur eða endurskoðun er úr vöndu að ráða. Í þessum efnum minni ég á gildi áfangasigra og málamiðlana.“
Þá beri forsetanum að stuðla að einingu, bera virðingu fyrir skoðunum annarra og varast að setja sig á háan hest.
Hann sagði að ólík sjónarmið verði að heyrast og málefnalegur ágreiningur væri til vitnis um þroskað og siðað samfélag. „Ég vona einmitt að við stöndumst það próf þegar við kjósum nýtt þing í haust. Í kosningum er tekist á um ólíkar stefnur og markmið en að þeim loknum verða þingmenn að vinna saman, finna lausnir, sýna sanngirni og beita þeim aðferðum sem auka virðingu þeirra sjálfra og hinnar aldagömlu stofnunar, Alþingis.“
Þá sagði hann að Íslendingar þurfi ekki að vera tortryggnir eða óttaslegnir um hag okkar á nýrri öld. „Hún er vonbjört og full af fyrirheitum. Vissulega geta ógnir leynst víða, það sanna dæmin því miður. Vissulega er gott að vera á varðbergi og hart þarf að mæta hörðu þegar nauðsyn krefur. En trú á hið góða verðum við að varðveita.“
Hann lauk ræðu sinni á því að segja: „Ég endurtek að lokum þá ósk mína að við stöndum saman um fjölbreytni og frelsi, samhjálp og jafnrétti, virðingu fyrir lögum og rétti. Stöndum saman um þessi grunngildi góðs samfélags, vongóð og full sjálfstrausts. Megi sú verða gæfa okkar um alla framtíð.“