62,4 prósent Íslendinga voru ánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands, samkvæmt síðustu könnun sem MMR gerði á ánægju með störf hans í júlí síðastliðnum. Í könnuninni þar á undan mældist ánægja með Ólaf Ragnar 64,7%.
Ekki hafa jafn margir verið ánægðir með störf forsetans fyrrverandi frá því í byrjun ársins 2013, þegar nýbúið var að kveða upp dóm í Icesave-málinu. Ánægja með störf hans hefur vaxið talsvert á þessu ári, eftir að hafa farið niður í 47% í lok síðasta árs.
Mikill munur reyndist á ánægju með störf Ólafs Ragnars eftir stjórnmálaflokkum, eins og oftast, og þau sem studdu ríkisstjórnarflokkana Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, voru mun ánægðari með störf hans en stuðningsmenn annarra stjórnmálaflokka.
Tæplega 88% framsóknarkjósenda voru ánægðir með forsetann og 81,4% þeirra sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn. 65% kjósenda Bjartrar framtíðar sögðust ánægð með Ólaf Ragnar og 59% Pírata. Aftur á móti var ánægja með forsetann 38,4% hjá kjósendum Samfylkingar, 43,7% hjá stuðningsfólki Viðreisnar og 48,3% hjá kjósendum Vinstri-grænna.