Mikil hætta er á því að Lofoten-eyjarnar í Noregi verði fyrir skemmdum vegna ágangs ferðamanna þar, segja ráðamenn á staðnum. Þeir biðjast undan því að fá fleiri ferðamenn á þennan afskekkta stað. Yfir ein milljón ferðamanna heimsótti eyjarnar síðasta sumar og bæjarstjórinn í Flakstad, Hans Fredrik Sørdal, hefur áhyggjur af ástandinu og tjáði sig við norska ríkisútvarpið NRK.
Stórstjarnan Matt Damon er nú við tökur á nýrri mynd. Downsizing, á eyjunum og það er talið geta ýtt undir að enn fleiri ferðamenn komi þangað. Þá hefur fjölgun ferðamanna einnig verið tengd við teiknimyndina Frozen, sem er vinsælasta teiknimynd allra tíma, en norsk ferðamálayfirvöld studdu gerð myndarinnar, sem var teiknuð eftir norsku landslagi. Í kjölfarið jókst ferðamannastraumurinn til Noregs um 20%.
Gunnar Skjeseth, sem á ferðaþjónustufyrirtæki í Trollfirði, segir jákvætt að milljónir manna muni sjá eyjarnar í myndinni. Engu að síður gæti það valdið of miklum straumi ferðamanna, þar sem ferðaþjónustuaðilar hafi „meira en nóg að gera nú þegar.“
Sørdal segir jafnframt að þrátt fyrir að jákvætt sé að staðurinn fái athygli vegna myndarinnar verði að hafa í huga að innviðir á staðnum væru nú þegar undir gríðarlegu álagi.
Íbúarnir á eyjunum eru 24.500 talsins og þeir hafa meðal annars kvartað undan umferðarþunga og miklum skorti á almenningsklósettum. Norska ríkisútvarpið hefur fjallað um ferðamenn sem geri þarfir sínar á víðavangi.
Þá segir Sørdal að einbreiðar brýr og vegir geti ekki annað umferðinni sem fylgir auknum fjölda bílaleigubíla. Auk þess séu fjallastígar og slóðar víða í slæmu ásigkomulagi.
Bæjarstjórinn óttast slys vegna þessa. „Náttúran er viðkvæm, og krefst þess að við séum miklu betur undirbúin.“