Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sækist eftir þriðja sæti á lista flokksins í sama kjördæmi í prófkjör flokksins sem fram fer 10. september. Hann bætist í hóp fleiri sjálfstæðismanna sem sækjast eftir sæti á lista flokksins í kjördæminu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, vill áfram leiða listann en Ásmundur Friðriksson þingmaður hefur gefið það út að hann sækist eftir fyrsta til öðru sæti listans. Unnur Brá Konráðsdóttir er nú annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Hún stefnir áfram á annað sæti listans.
Auk þeirra fjögurra sem öll eru þingmenn hefur Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, lýst yfir áhuga á endurkomu á Alþingi. Hann skýrði frá því í grein í Morgunblaðinu í morgun að hann ætli að bjóða sig fram í eitt af forystusætum listans í Suðurkjördæmi.
Vilhjálmur er einn þeirra yngri þingmanna sem náðu í fyrsta sinn kjöri á þing í kosningunum 2013. Í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum í morgun segir hann það hafa verið ánægjulegt og lærdómsríkt að sitja á Alþingi undanfarin ár. „[Þ]ar hef ég fengið að kynnast og koma að fjölmörgum mikilvægum málum. Þar ber helst að nefna þau mál sem tengjast þingnefndunum tveimur sem ég hef átt sæti í undanfarin ár - umhverfis- og samgöngunefnd og allsherjar- og menntamálanefnd - en þær endurspegla vel málefni grunnþjónustunnar sem ég hef lagt hvað mesta áherslu á í störfum mínum á Alþingi.“
Hann segist drifinn af einlægum vilja til að vinna að mikilvægum málum. „Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér til endurkjörs og óska eftir stuðningi ykkar í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem fram fer hinn 10. september nk.. Framboðið mun ég helga baráttunni fyrir bættum samgöngum. Það geri ég vegna þess að samgöngur eru allri þjóðinni mikilvægar enda stuðla þær að fjölþættu og blómlegu atvinnulífi sem er forsenda góðra lífskjara.“