Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, varð fyrsti þjóðhöfðinginn í heiminum til að ávarpa Gleðigönguna eða sambærilegar hátíðir í dag. Guðni flutti ræðu við Arnarhól á áfangastað Gleðigöngunnar.
Í ræðu sinni sagðist Guðni ekki ætla að verða siðapostuli né byltingasinni á forsetastóli og sagði að það væri ekkert stórmál að hann flytti ræðu við þetta tækifæri, jafnvel þó mikið hafi verið látið með það. „Í raun hafa allir [hér] sama málstað til að verja, sama tilefni til að gleðjast. Frelsi og framfarir, samstaða, umburðarlyndi og mannréttindi. Þessi leiðarljós eiga að skína skært í samfélagi fólks. Við fögnum hér frelsi. Ástfrelsi,“ sagði Guðni.
Á vefnum Gay Iceland.is er það fullyrt að Guðni hafi ekki aðeins orðið fyrsti íslenski forsetinn til að ávarpa Gleðigöngu heldur fyrsti þjóðhöfðinginn í heiminum til að ávarpa opinberlega sambærilegar hátíðir í öllum heiminum. Guðni segist í samtali við Gay Iceland hafa fylgst með Hinsegin dögum í mörg ár og séð Gleðigönguna með fjölskyldu sinni. „Þetta er alltaf jafn gaman,“ segir Guðni í samtalinu sem fram fór á ensku.
Í ræðunni sagði Guðni einnig að þetta frelsi sem fagnað var í dag væri mikils virði. Hann þekkti það af eigin raun úr æsku hversu dýrmætt og einstakt það væri að hafa frelsi til þess að hafa ekki áhyggjur af því hvað aðrir halda um mann, eða hvað aðrir halda um mann. Hann sagði samfélagið hafa farið í rétta átt og spurði hvort við værum kannski komin á áfangastað. „En þessari frelsisbaráttu lýkur í raun aldrei,“ svaraði Guðni sjálfur.
„Ég vil sérstaklega hvetja alla til að taka á fordómum sem enn þarf að glíma við í heimi íþróttanna. Á Íslandi hefur lesbía orðið forsætisráðherra. Vonandi fáum við bráðum homma í eitthvað okkar ágætu karlalandsliða,“ sagði Guðni og endaði svo ræðuna á því að benda á að kannski væru bara allir „hinsegin“ því „þegar vel er að gáð þá er enginn eins og fólk er flest.“