Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur greint frá því að aðildarfélög þess fái 453 milljónir króna sem þau skipta á milli sín vegna árangurs íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi í sumar, þar sem liðið komst í átta liða úrslit. Fjármunirnir skiptast á milli félaga eftir árangri þeirra í deildarkeppni síðastliðin þrjú ár. Hæstu greiðsluna fá fimm úrvaldsdeildarfélög: Fylkir, Breiðablik, Valur, Stjarnan og ÍBV. Þau fá 18,2 milljónir króna í sinn hlut hvert. Lægsta upphæð þeirra liða sem leika í dag í Pepsí-deild karla fær Víkingur Ólafsvík, eða 14,3 milljónir króna.
Hægt er að sjá frekari skiptingu á greiðslunum og aðferðarfræðinni á bakvið þær hér.
Langhæstu styrkir sem hafa farið til félaga
KSÍ greindi frá því á ársþingi sambandsins þann 13. febrúar síðastliðinn hvernig styrkir og framlög þess til félaganna í ár áttu að skiptast. Ljóst var að tilkynningarinnar er beðið með töluverðri eftirvæntingu, enda voru styrkir og framlög KSÍ til aðildarfélaga áætlaðir 413 milljónir króna á árinu 2016. Það er langhæsta upphæð sem KSÍ hefur nokkru sinni útdeilt til félaganna, en til samanburðar fengu þau 147 milljónir króna í fyrra.
Ástæða aukningarinnar var sú að áætlanir gerðu ráð fyrir að tekjur KSÍ myndu tvöfaldast í ár vegna þátttöku karlalandsliðsins í knattspyrnu EM í Frakklandi. Velta sambandsins átti að fara úr 1.112 milljónum króna í 2.263 milljónir króna, aðallega vegna þess að styrkir frá knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) færu úr 356 milljónum króna í 1.506 milljónir króna á milli ára. Samkvæmt fjárhagsáætlun KSÍ sem birt var í febrúar átti þessi gríðarlega aukning í veltu skila sambandinu 600 milljónum króna í hagnað á árinu 2016. Og aðildarfélög sambandsins munu njóta þess.
Íslenska landsliðið kom síðan öllum á óvart í sumar og komst mun lengra á EM en nokkur átti von á. Það varð til þess að tekjurnar vegna þátttöku liðsins urðu mun meiri en upphaflega var áætlað. Samkvæmt áætlun ársins var gert ráð fyrir að tekjurnar vegna EM yrðu 1,1 milljarður króna, en á endanum voru þær nær 1,9 milljörðum króna. Nú hefur sú aukning á tekjum orðið til þess að sú upphæð sem rennur til aðildarfélaga verður 453 milljónir króna.