Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir prófkjör flokksins í Norðvesturkjördæmi og ásakanir flokksmanna á hendur Birgittu Jónsdóttur helgast af samskiptabresti. Ásta Guðrún var gestur Helga Seljan í Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Birgitta er sögð hafa hringt í áhrifafólk í Pírötum á Norðvesturlandi eftir að úrslit í fyrra prófkjörinu þar voru ljós og krafist þess að Gunnari Ingiberg Guðmyndssyni yrði komið í fyrsta eða annað sætið á framboðslistanum. Úrslit prókjörsins voru síðar kærð vegna ásakana um smölun til fylgis við ákveðna frambjóðendur. Kæran hafði hins vegar engin áhrif vegna þess að hún átti ekki við. Úrslitunum var þá hafnað í staðfestingarkosningu og nýtt prófkjör haldið.
Birgitta hefur þvertekið fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á úrslit prófkjörsins eða skipað frambjóðendum að víkja fyrir Gunnari Ingiberg. Ágúst Smári Beaumont, sem situr í kjördæmaráði Pírata í kjördæminu, segir í samtali við Fréttatímann að Birgitta hafi hringt í sig og lýst yfir óánægju sinni með listann. „[...] og sagði meðal annars að hún þekkti ekkert þennan Þórð,“ er haft eftir honum. „Kjarni samtalsins var sá að hún sigar mér beinlínis í það verkefni að fá aðra frambjóðendur til að færa sig neðar svo það væri hægt að koma Gunnar Ingiberg Guðmundssyni í hærra sæti á listanum.“
Ásta Guðrún segir Pírata í Norðvesturkjördæmi einfaldlega hafa misskilið Birgittu. Þetta séu samskiptavandamál. „Birgitta er stór fígúra í Pírötum,“ sagði Ásta Guðrún í Vikulokunum. Fólk hafi túlkað það þannig að hún mæli lög. „Hún hefur hins vegar ekkert valdboð. Þetta er brestur á því hvernig við tölum við hvort annað og á hvaða forsendum.“
Ásta Guðrún viðurkennir að þessi prófkjör í Norðvesturkjördæmi hjá Pírötum hafi klúður. Hún vonar að fólk innan flokksins geti sæst og komist yfir þetta. „Við verðum að gefa okkur tækifæri til að anda og læra af misstökunum,“ sagði hún.
Samskiptavandamál hafa áður komið upp í Pírötum. Í febrúar kallaði þingflokkurinn, sem skiptaður er Ástu Guðrúnu, Birgittu og Helga Hrafni Gunnarssyni, til vinnustaðarsálfræðing til að leysa úr samskiptaörðugleikum á milli þeirra. Í yfirlýsingu sem var send út við þetta tilefni sagði að álagið á þessa fáu kjörnu fulltrúa flokksins hafi margfaldast samhliða því að flokkurinn hafi vaxið og dafnað. Í febrúar mældist fylgi Pírata um og yfir 40 prósent og var hann þá langstærsti flokkurinn í skoðanakönnunum.
Uppfært kl. 16:16 – Ranghermt var að kæra á úrslit fyrra prófkjörsins hafi orðið til þess að kosið var að nýju. Hið rétta er að kæran hafði engin áhrif. Hins vegar var úrslitum prófkjörsins hafnað í svokallaðri staðfestingarkosningu. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.