Aldrei fyrr hefur frambjóðandi til forseta Bandaríkjanna haft jafn mikil fjárhagsleg tengsl við bæði bandamenn og óvini Bandaríkjanna og Donald Trump., og aldrei fyrr hafa viðskipti verið eins mikil ógn við Bandaríkin. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar Newsweek á viðskiptatengslum Trump og Trump-samsteypunnar.
„Ef Donald Trump vinnur í þessum kosningum og fyrirtækinu verður ekki strax lokað eða tengslin við Trump-fjölskylduna slitin með öllu, gæti utanríkisstefna Bandaríkjanna vel verið til sölu,“ segir Newsweek.
Trump Organization hefur ekki verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum, en er risastór samsteypa sem talið er að tryggi Trump-fjölskyldunni hundruði milljóna dala á hverju ári. Newsweek tók fjölda viðtala við yfirmenn hjá fyrirtækinu og alþjóðlega bandamenn og segir að í ljós hafi komið fyrirtæki með náin tengsl við alþjóðlega fjármagnseigendur, erlenda stjórnmálamenn og jafnvel glæpamenn, þótt ekkert bendi til þess að fyrirtæki hafi gert nokkuð ólöglegt. Einnig hafi komið í ljós mikið flækjustig í samningum sem væri ekki bara hægt að hætta við ef Trump yrði forseti. „EF Trump flytur inn í Hvíta húsið og fjölskylda hans heldur áfram að hagnast á einhvern hátt af þessu fyrirtæki, á meðan eða jafnvel eftir forsetatíð hans, verða hagsmunaárekstrar og siðferðisleg kviksyndi í nánast öllum ákvörðunum hans í utanríkismálum.“
Newsweek bendir á það að í mörgum ríkjum hafi stjórnvöld bein eða óbein völd yfir fyrirtækjum, og þar á meðal sé fjöldi fyrirtækja sem nú þegar sé í viðskiptum við Trump-samsteypuna. Þannig gætu stjórnvöld í þessum írkjum reynt að hafa áhrif á Trump sem forseta með viðskiptum við fyrirtækið, og því væri hægt að færa fyrir því rök að löglegar mútur frá erlendum ríkjum yrðu raunhæfur möguleika á meðan hann væri forseti.
Suður-Kórea, Indland, Tyrkland, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Líbýa, Aserbaídsjan, Rússland og Úkraína eru meðal þeirra ríkja sem tekin eru dæmi af tengslum Trump við í umfjöllun Newsweek, en viðskiptin ná til svo margra landa að það sé ómögulegt að greina hvern einasta hagsmunaárekstur. Fyrirtækið hefur einnig djúp tengsl við Kína, Brasilíu, Búlgaríu, Argentínu, Kanada, Frakkland, Þýskaland og fleiri lönd.
Eitt dæmið sem Newsweek segir sérstaklega truflandi eru tengsl Trump við Gaddafi, fyrrum einræðisherra í Líbýu, sem stjórnvöld í Bandaríkjunum sögðu að tengdist hryðjuverkasamtökum. Trump sóttist eftir viðskiptum við Líbýumenn og hugmyndin var að koma upp hóteli við Miðjarðarhafið. Ári síðar, árið 2009, bauð Trump Gaddafi að leigja húsið sitt í Westchester í New York. Gaddafi borgaði honum fyrir leiguna en eftir mótmæli fólks á staðnum ákvað Trump að banna Gaddafi að vera þar.