Parísarsamkomulagið er tímamótasamkomulag og mun með tímanum geta haft mikil áhrif á líf okkar. Þetta sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, eftir að Parísarsamningurinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum var fullgiltur á Alþingi í gær.
Samningurinn var samþykktur í desember á síðasta ári, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York, en í honum er meðal annars kveðið á um að ríki stefni að því ná 40 prósent samdrætti í losun árið 2030 miðað við útblástur árið 1990.
Undirritun samningsins fór fram í 22. apríl á þessu ári, og skrifuðu þá fulltrúar 160 ríkja undir hann, þar á meðal Sigrún Magnúsdóttir. Alþingi hefur nú samþykkt að heimila fullgildingu samningsins.
Kallar á margvíslegar aðgerðir
Ísland hefur forskot á margar þjóðir í heiminum, þegar kemur að því uppfylla meginmarkmiðin, einkum og sér í lagi vegna þess að orkunýting okkar byggir á nýtingu endurnýjanlegrar orku vatnsafls og jarðhita. En áskoranirnar eru engu að síður miklar, og ljóst að mikilla aðgerða er þörf. Sigrún hefur sjálf talað fyrir því að margt sé hægt að gera, til dæmis að rafvæða bíla- og skipaflotann og auðvitað margt fleira. En fólk verði sjálft að leggja mikið af mörkum með umhverfisvænum lífstíl.
Parísarsamningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar sem ríkin hafa sjálfviljug sett fram með það að markmiði að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Jafnframt skuli leita leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C. Samningurinn mun hafa áhrif á markmið Íslands í loftslagsmálum, en hefur ekki að geyma bein ákvæði um tölulegar skuldbindingar einstakra ríkja. Ísland lagði fram áætlað framlag sitt í júní 2015 eftir samþykkt þess efnis í ríkisstjórn, og hefur málinu verið fylgt eftir síðan.
Ísland í fararbroddi
„Að auki tekur samningurinn meðal annars til aðlögunar að loftslagsbreytingum, stuðnings þróaðra ríkja við þróunarlönd, upptöku og varðveislu kolefnis í skógum og öðrum viðtökum og gegnsæi. Hvert ríki skal halda traust bókhald og gefa reglulega upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda. Gert er ráð fyrir að landsákvörðuð framlög séu uppfærð á fimm ára fresti þannig að þau verði sífellt metnaðarfyllri og í samræmi við niðurstöður og leiðsögn vísinda, í því skyni að ná markmiðum um að halda hækkun hitastigs innan tiltekinna marka,“ segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu,.
Samningurinn tekur gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55 prósent af heimslosun hafa fullgilt hann. Nú hafa yfir 20 ríki fullgilt Parísarsamninginn, Ísland þar á meðal. Þessi ríki eru því í fararbroddi þeirra sem hafa skuldbundið til að fullgilda samninginn. Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra að fullgilding Alþingis sé ánægjuleg. „Það er ánægjulegt að Ísland skuli vera í hópi þeirra ríkja sem staðfesta fullgildingu sína á Allsherjarþingi SÞ nú í vikunni og verði þannig í hópi þeirra 55 ríkja sem verða til þess að samningurinn taki gildi. Ég finn sterkt fyrir áhuga þjóða heims á Parísarsamningnum og hvað loftlagsmálin eru mikilvæg öllum þeim sem láta sig varða velferð í heiminum. Það er því sérstakt ánægjuefni að Ísland hafi lagt sitt lóð á vogarskálarnar," segir Lilja.