Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist ætla að virkja 50. grein Lisabon-sáttmálans fyrir lok mars á næsta ári. Eftir því hefur verið beðið að bresk stjórnvöld hefji útgöngu úr Evrópusambandinu formlega með því að óska eftir því við framkvæmdastjórn sambandsins að fá að hætta.
50. grein Lisabon-sáttmálans fjallar um það ferli sem fer í gang ef ríki óskar þess að segja sig úr Evrópusambandinu. Bretar greiddu atkvæði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní að ganga úr Evrópusambandinu. Hið svokallaða Brexit hefur hins vegar gengið hægar en búist var við.
Á flokksþingi Íhaldsflokksins í Bretlandi sagði May að aðskilnaður Breta frá Evrópusambandinu verði alger. Verði það þannig að Bretar muni ekki fá aðgang að sameiginlegum markaði Evrópu án þess að hlýða reglum um frjálst flæði fólks yfir landamæri, verði það það þannig. Það sé mikilvægara að Bretland stjórni landamærum sínum en að hafa aðgang að sameiginlega markaðinum.
Ný ríkisstjórn Theresu May tók við af ríkisstjórn David Cameron eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún hefur hingað til ekki viljað gefa út nákvæma dagsetningu á því hvenær Bretland hyggist óska eftir útgöngu úr ESB. Fyrir því liggja margar tæknilegar ástæður enda er það öllum ljóst að gríðarlega flókið verkefni er að afnema Evrópulög í Bretlandi eða aðlaga þau að breyttum veruleika.
Ríkisstjórn May hefur þess vegna ítrekað óskað eftir lengri tíma til þess að ganga frá málunum heimafyrir þvert á það sem helstu leiðtogar Evrópusambandsins hafa farið fram á. Á meginlandinu er það talið vera lykilatriði fyrir framtíð Evrópusambandsins að aðskilnaðurinn við Bretland gangi sem hraðast fyrir sig.
Um leið og Bretland óskar formlega eftir útgöngu úr ESB hefst tveggja ára ferli þar sem samið verður um þær leiðir sem farnar verða.