Íslenska karlalandsliðið í fótbolta sigraði tyrkneska landsliðið á Laugardalsvellinum í kvöld, 2-0, í öðrum leik undankeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta árið 2018.
Mörkin skoruðu Theodór Elmar Bjarnason og Alfreð Finnbogason, bæði mörkin komu á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik og eftir það var sigurinn aldrei í hættu. Reyndar er fyrra markið ekki formlega skráð á Theodór Elmar, heldur á varnarmann Tyrkja, Omer Toprak, sem skotið fór í.
Ef eitthvað er voru Tyrkir heppnir að fá ekki á sig fleiri mörk, og íslenska liðið að sama skapi óheppið að bæta ekki við fleiri mörkum.
Niðurstaðan er því að Ísland er með fullt hús stiga út úr þessum tveimur heimaleikjum í vikunni, á móti Tyrklandi og Finnlandi, og sjö stig af níu í undankeppninni alls. Leikurinn í kvöld var jafnframt tíundi leikurinn í röð án taps hjá liðinu á Laugardalsvelli.
Íslenska liðið er með sjö stig líkt og króatíska liðið. Króatíska liðið er einmitt næsti andstæðingurinn, en liðin munu mætast í Króatíu þann 12. nóvember næstkomandi.