Vaxandi þrýstingur er nú sagður innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um að Donald Trump, forsetaframbjóðandi flokksins, dragi framboð sitt til baka. Ástæðan er sú að hann er ekki talinn siðferðilega hæfur til þess að vera forsetaefni þessa rótgróna flokks í Bandaríkjunum. Sérstaklega eru það umdeild ummæli hans um konur, frá árinu 2005, sem hafa leitt til mikillar umræðu innan Repúblikanaflokksins.
Washington Post birti myndband frá árinu 2005 þar sem hann heyrist tala niður til kvenna með afar niðrandi hætti. Trump hefur sjálfur beðist afsökunar á ummælunum og kona hans, Melina Trump, hefur sagt þau óásættanleg. Hún segist þó standa með manni sínum og segir hann vera leiðtoga sem heimurinn þurfi á að halda.
Quartz birti í gær lista yfir 30 valdamenn innan Repúblikanaflokksins sem hafa nú snúist gegn Trump og dregið stuðningsyfirlýsingar sínar til baka. Þar á meðal er Christina Todd Whitman, fyrrverandi ríkisstjóri í New Jersey, en hún hefur til þessa vera mikilvægur bandamaður hans.
Þá lýsti John McCain, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, því yfir í gær að hann gæti ekki kosið Trump. Hegðun hans væri óafsakanleg.
Vefurinn FiveThirtyEight.com telur nú 81,6 prósent líkur á því að Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, vinni kosningarnar 8. nóvember næstkomandi, en aðeins 18,4 prósent líkur eru taldar á sigri Trump. Fyrir mánuði síðan leit spáin allt öðruvísi út, voru þá 48 prósent líkur á sigri Trump.