Fjárfestirinn þekkti, Warren Buffett, birti í gær upplýsingar um skattaskýrslur sínar alveg frá árinu 1944 en samkvæmt þeim þá sagði Donald J. Trump ósatt, þegar hann fullyrti í sjónvarpkappræðum við Hillary Clinton á sunnudaginn að Buffett væri einn þeirra sem nýtti sér glufur í lögum til að greiða ekki skatta í ríkissjóð og hefði meðal annars gert það árið 1995.
Þetta er ekki rétt hjá Trump.
Buffett, sem er forstjóri fjáfestingafélagsins Berkshire Hathaway og einn valdamesti einstaklingurinn á bandarískum hlutabréfamarkaði, sagði í yfirlýsingu að hann ætti afrit af öllum sínum skattaskýrslum og hefði greið skatt í samræmi við lög, án þess að nýta sér frádráttarmöguleika til hagsbóta fyrir sig, í 72 ár í röð. Fyrsta árið sem hann greiddi skatt var árið 1944, en þá var hann þrettán ára.
Í fyrra nam hans persónulega innkoma 11,4 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1,2 milljörðum króna. Af þeim fjármunum valdi hann að greiða 3,4 milljónir Bandaríkjadala í góðgerðarstarf, eða sem nemur um 450 milljónum króna. Sjálfur greiddi hann 1,8 milljónir Bandaríkjadala, um 220 milljónir króna, í alríkisskatt.
Buffett, sem er orðinn 86 ára gamall, hefur gefið það út að hann ætli sér að gefa frá sér meira en 95 prósent af eignum sínum í góðgerðarstarf, þegar hann hættir störfum.
Eignir Warren Buffetts eru nú metnar á yfir 60 milljarða Bandaríkjadala, en heildareignir Berkshire Hathaway nema yfir 520 milljörðum Bandaríkjadala.
Buffett hefur ekki farið leynt með það, að hann styður Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fara fram 8. nóvember.