Um 52,6 prósent fólks getur hugsað sér að færa bankaviðskipti sín til svokallaðs samfélagsbanka, væri sá möguleiki fyrir hendi. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem MMR gerði fyrir stjórnmálaflokkinn Dögun.
Spurt var í könnuninni, hvort fólk myndi færa bankaviðskipti sín til samfélagsbanka ef sá möguleiki væri fyrir hendi. Eins og áður sagði gat meirihluti fólks hugsað sér það, 11,1 prósent var sagði nei en 36,3 prósent sagðist ekki vita það.
Svarendur fengu eftirfarandi inngang áður en spurningin var lögð fyrir: „Samfélagsbanki er viðskiptabanki sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkis eða sveitarfélags. Samfélagsbankar bjóða upp á almenna bankaþjónustu og bjóða almennt lægri vexti og þjónustugjöld en annars konar viðskiptabankar. Samfélagsbankar stunda ekki viðskipti á almennum hlutabréfamarkaði, heldur stunda eingöngu fjárfestingar sem bera með sér minni áhættu (s.s. fjárfestingar í tryggðum skuldabréfum). Samfélagsbankar hafa almennt yfirlýst markmið um að þjóna nærsamfélagi sínu,“ segir í samantekt niðurstaðna.
Spurningar í könnuninni voru skilyrtar að beiðni Dögunar á þann hátt að svarendum voru gefnar tilteknar forsendur áður en þeir tóku afstöðu til spurninganna. MMR áréttar „mikilvægi þess að í allri umfjöllun sé skilmerkilega greint frá öllum forsendum könnunarinnar og niðurstöður séu túlkaðar til samræmis,“ eins og orðrétt segir í samantektinni.
Samfélagsbanki er eitt af grundvallaratriðum í kosningabaráttu Dögunar, en í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 10,1 prósent gæti hugsað sér að kjósa Dögun.
Með samfélagsbankahugmyndinni vill Dögun meðal annars gera grundvallarbreytingar á fjármálakerfinu þar sem horft er til afnáms verðtryggingar á neytendalánum, aðskilnaðar viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, vaxtaþaks á húsnæðislán og að bankaleynd verði afnumi í samræmi við lög um persónuvernd. Með samfélagsbanka yrði horft til þess að reka ekki banka ekki í hagnaðarskyni, heldur fyrst og fremst til að styðja við fólk og fyrirtæki, að því er Dögun hefur lagt áherslu í sínum málflutningi.