Í gær var kynnt skýrsla Capacent um íbúðamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurborg stóð fyrir kynningu á stöðu íbúðauppbyggingar í borginni á sérstökum fundi um málið í gær. Fullt var út úr dyrum og augljóst að mikill áhugi er á uppbyggingaráformum og stöðu mála á markaðnum.
Kjarninn tók saman fimm mikilvæg atriði um uppbygginguna á höfuðborgarsvæðinu.
1. Uppsöfnuð þörf fyrir eignir, einkum litlar og meðalstórar, er umtalsverð. Þessi staða veldur þrýstingi á fasteignaverðið upp á við þar sem eftirspurnin er töluvert meiri en framboðið. Í máli Snædísar Helgadóttur, ráðgjafa hjá Capacent, kom fram að uppsöfnuð þörf á markaðnum væri nú 5.100 íbúðir. Í Reykjavík er þörfin metin um 3.000 til 3.300 íbúðir.
2. Samtök iðnaðarins hafa áætlað að náttúruleg þörf fyrir íbúðir sé á bilinu 1.500 til 1.800 íbúðir á ári, til þess að halda í við fólksfjölgun og þróun á fasteignamarkaði. Eftir hrunið var lítið byggt, og því hefur orðið til nokkurt ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.
3. Verðhækkun á eignum hefur verið hröð og mikil á undanförnum árum. Á undanförnu ári hafa eignir hækkað um 12 prósent að raunvirði, en hækkunin hefur verið mest miðsvæðis í Reykjavík. Spár gera ráð fyrir að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næstu árum, eða um 20 prósent til viðbótar fram til ársins 2018. Mikil kaupmáttarhækkun, meðal annars vegna launahækkana og lágrar verðbólgu, en hún mælist nú 1,8 prósent en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.
4. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, gerði stöðu húsnæðismála að umtalsefni í vikulegu fréttabréfi sínu, og segir að mesta uppbyggingartímabil í sögunnar borgar sé nú hafið. „Nú þegar er komið byggingarleyfi fyrir 2000 íbúðir og samþykkt hefur verið deiliskipulag fyrir 3500 íbúðir, að auki. Um leið eru 4000 íbúðir til viðbótar eru á svæðum sem eru í deiliskipulagsferli. Framundan eru því metár í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík,“ segir Dagur í fréttabréfi sínu.
5. Vöxtur í ferðaþjónustinni hefur haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega miðsvæðis í Reykjavík. Þetta er meðal annars gert að umtalsefni í nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands. Á vef Airbnb, þar sem íbúðir og herbergi eru til leigu fyrir erlenda ferðamenn, eru um þrjú þúsund íbúðir til leigu, langflestar miðsvæðis í Reykjavík. Þetta hefur leitt til þess að framboð eigna til varanlegrar búsetu, ýmist til kaups eða leigu, er minna. Það svo ýtir undir hækkun fasteignaverðs.