Ólafur Ólafsson, sem dæmdur var í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða, hefur stefnt embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Ólafur vill að úrskurður endurupptökunefndar í málinu, sem féll í byrjun árs 2016, verði felldur úr gildi og viðurkennt að skilyrði fyrir endurupptöku málsins séu uppfyllt. Frá þessu er greint á Vísi.
Í febrúar var greint frá því að endurupptökunefnd hefur hafnað beiðnum Ólafs Ólafssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar um endurupptöku Al Thani málsins. Í niðurstöðu endurupptökunefndar vegna beiðni Ólafs sagði að það sé „hafið yfir allan skynsamlegan vafa“ að sá „Óli“ sem talað er um í símtali milli tveggja lögmanna, og var hluti gagna í málinu, sé Ólafur Ólafsson. Ólafur byggði endurupptökubeiðni sína á því að svo væri ekki heldur að verið væri að ræða annan „Óla“.
Ólafur fór einnig fram á að málið yrði endurupptekið vegna þess að tveir dómarar í Hæstarétti sem dæmdu í Al Thani-málinu, þeirra Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar, hefðu verið vanhæfir til að fella dóminn vegna þess að synir þeirra hefðu starfað hjá slitastjórn Kauþings. Þessari ástæðu var einnig hafnað af endurupptökunefnd.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, fóru líka fram á endurupptöku Al Thani málsins vegna tengsla dómara við syni sína og vegna þess að sönnunargögn hefðu verið metin rangt. Þeirra beiðnum var einnig hafnað.
Sigurður Einarsson er fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Ólafur Ólafsson átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans. Þeir voru allir dæmdir sekir í Al-Thani málinu í Hæstarétti fyrir tæpu ári síðan. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, og Ólafur fjögur og hálft ár. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var líka dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í málinu.
Í tilkynningu frá KOM almannatengslum, sem send var fyrir hönd Ólafs Ólafssonar þegar niðurstaða endurupptökunefndar lá fyrir í febrúar, sagði að það hefðu verið Ólafi og fjölskyldu hans „veruleg vonbrigði“ að beiðninni hafi verið hafnað.
Í sumar var greint frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu hagi sent íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem stjórnvöld eru krafin svara við spurningum um Al-Thani málið í kjölfar kæru þeirra manna sem sakfelldir voru í málinu. Íslenska ríkið hefur enn ekki svarað þeim spurningum og fengið aukin frest til að gera það.