„Hvert sem ég fer þessa dagana, bæði hér heima og erlendis, er ég spurður að sömu spurningunni: Hvað er að gerast í stjórnmálunum í Bandaríkjunum? Hvernig hefur þjóð sem hefur hagnast – hugsanlega meira en nokkur önnur þjóð – á framlagi innflytjenda, viðskiptum um útlönd og nýsköpun á sviði tækni, allt í einu þróað með sér and-innflytjendastefnu og einangrunarhyggju? Hvernig gat þetta gerst?“
Svona hefst ítarleg grein Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, sem hann ritaði í síðasta hefti The Economist. Hún ber heitið Vegurinn framundan (The Way Ahead), og fjallar hann meðal annars um stöðuna í stjórnmálunum, nú þegar um þrjár vikur eru til forsetakosninga í landinu. EN þar. Í greininni segir hann, að það sé réttmæt að spyrja þessara spurninga, þó of lítið sé rætt um þær miklu framfarir sem hafa orðið í hagkerfi Bandaríkjanna frá því fjármálakreppan náði hámarki, í nóvember 2008, þegar Obama var kjörinn forseti.
Uppgangur „popúlisma“
Obama segir að þetta sé ekkert nýtt, en þessi mikla hræðsla við breytingar, ofan á andúð í garð innflytjenda, sé vel sjáanleg um allan heim. Bandaríkin séu ekki eina landið sem upplifi þetta, og nefnir Obama sérstaklega Brexit-atkvæðagreiðsluna í Bretlandi sem dæmi um þróun á vettvangi stjórnmálanna sem sýni glögglega að „popúlismi“ sé vaxandi í þróuðum ríkjum.
Obama segir að tímamót séu framundan í þróun efnahagsmála, þar sem of langur tími hafi litið þar sem framleiðni hafi ekki vaxið samhliða hagvextir og fólksfjölgun, og á sama tíma hafi misskipting auðs aukist. Þá segir hann að of margt hæfileikaríkt fólk, ekki síst á sviði raunvísindagreina, vinni við að „færa til fjármagna í fjármálageiranum“ í stað þess að virkja hæfileika sína í nýsköpun í raunhagkerfinu.
Á réttri leið
Obama eyðir töluverðu púðri í að rökstyðja að efnahagur Bandaríkjanna sé nú á réttri leið, eftir mikið og langt erfiðleikatímabil. Atvinnuleysi mælist nú um fimm prósent en það fór hæst yfir 10 prósent eftir fjármálakreppuna. Þá hafa lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu einnig verið að styrkja rekstur sinn og nýráðningar eru nú á stað sem Obama telur vera heilbrigðismerki.
Hann nefnir einnig að allir hópar hafi styrkt stöðu sína, þegar meðaltölin eru skoðuð, einkum og sér í lagi fátækir og millistéttarfólk. Hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur mælst 1,5 til 2,5 prósent á undanförnu ári, og segir Obama það í takt við væntingar.
Breytingar
Obama segir að nýsköpun, ekki síst á sviði orkumála, sé það sem mestu muni skipta fyrir gang efnahagsmála á næstu árum. Þar skipti stefnumörkun stjórnvalda miklu máli, því hún opni tækifæri fyrir háskóla og einkafyrirtæki, til að halda kyndlinum á lofti í þessum efnum.
Hann biður fólk um að sýna þolinmæði, en um leið horfa eftir smáatriðunum, og sjá hvort hlutirnir séu ekki að færast áfram frekar en aftur á bak. „Bandrísk stjórnmál geta verið uppspretta gremju og vantrúar. Trúið mér, þegar ég segi það. En upplýsingar sýn að undanfarnir tveir áratugir hafa verið tími framþróunar, þrátt fyrir allt [...] Þetta ætti að vekja von í brjósti.“