Forsætisráðherra á ekki að þurfa að sæta því að embættismenn ríkisins hljóðriti samtöl við hann „án hans vitundar“. Þetta segir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætsráðherra og nú sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, um þá frásögn starfsmanns Sturlu Pálssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands, að tilviljun hafi ekki ráðið því að Davíð Oddsson hljóðritaði samtal þeirra. Þá segir hann það alveg skýrt, að Seðlabankinn hafi borið ábyrgð á láninu, þó hann hafi talið það tilraunarinnar virði. Það séu vonbrigði að veð sem Seðlabankinn taldi trygg, skyldu ekki duga fyrir láninu.
Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV um símtal Geirs og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns stjórnar Seðlabanka Íslands, 6. október 2008, þegar ákveðið var að lána Kaupþingi 500 milljónir evra sama dag og neyðarlögum var beitt. Um 35 milljarðar króna af upphæðinni eru tapaðir.
Í skjali þar sem Geir svarar fyrirspurnum Kastljóss, vegna málsins, sem birt hefur verið á vef RÚV, kemur fram að Seðlabankinn hafi borið ábyrgð á lánveitingunni. „Þegar Seðlabankinn veitti Kaupþingi neyðarlánið lá fyrir að Kaupþing gat lagt fram veð sem var umfram lánsupphæðina- svokallað allsherjarveð sem náði þar með einnig til annarra skulda bankans við Seðlabankann. Þetta veð var FIH bankinn í Danmörku. Seðlabankinn kannaði það sérstaklega hjá Seðlabanka Danmerkur hvort þetta veð væri ekki örugglega traust og fékk skýr svör um að svo væri. Ítrekaði seðlabankastjóri það í samtalinu að lánið yrði aldrei veitt nema gegn öruggu veði. Það var Seðlabankinn sem veitti lánið til Kaupþings en það var gert að höfðu samráði við mig sem forsætisráðherra sem hafði hvorki þá né nú ákvörðunarvald yfir lánveitingum bankans,“ segir í Geir í svari sínu við fyrirspurn Kastljóss.
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, viðurkenndi að hafa brotið trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína, sem þá var lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja, um aðgerðir bankans í aðdraganda setningu neyðarlaganna. Þetta kemur fram í vitnaskýrslu sem tekin var af Sturlu af sérstökum saksóknara árið 2012 og fjallað verður um í Kastljósi í kvöld.
Við skýrslutökuna varaði Sturla sjálfur við því að innherjar gætu nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett. Sturla, sem starfar enn í Seðlabankanum, upplýsti bankann ekki um framburð sinn hjá sérstökum saksóknara fyrr en eftir að Kastljós spurðist fyrir um málið hjá honum. Frá þessu er greint á vef RÚV.