Innlent „eignarhald“ á stefnu, ákvörðunum og aðgerðum var lykillinn að árangri þegar tekist var á við efnahagsvandann sem Ísland stóð frammi fyrir haustið 2008.
Þetta er ein af megin niðurstöðum í fyrirlestri Lilju D. Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins, í London School of Economics í fyrrakvöld. Í fyrirlestrinum fjallaði Lilja um viðbrögð Íslands við fjármálaáfallinu haustið 2008 og hvaða lærdóm mætti draga af því hvernig staðið var að aðgerðum.
Fjöldi fólks sótti fyrirlesturinn, einkum fræðimenn og nemendur skólans, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
„Það er mikilvægt að við segjum frá þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í á undanförnum átta árum, til að rétta af efnahag Íslands eftir fjármálaáfallið 2008. Það er nauðsynlegt að skiptast á skoðunum við umheiminn, rökræða kosti og galla þeirra leiða sem við höfum valið og draga lærdóm af reynslunni,“ sagði Lilja.
Hún sagði að fyrstu aðgerðir Íslands hafa verið gríðarlega mikilvægar, enda hefðu sumar þeirra verið óhugsandi á seinni stigum flókna verkefnis sem endurreisnin var.
Eins og kunnugt er var lykilaðgerðin neyðarlagasetning mánudaginn 6. október 2008, sem gerði stjórnvöldum og Fjármálaeftirlitinu mögulegt að endurskipuleggja bankastarfsemina án þess að stöðva ganginn í bankakerfinu. Rúmlega mánuði síðar voru svo fjármagnshöft sett á með lögum til að hindra stjórnlaust fall krónunnar og koma á stöðugleika á fjármagnsmarkaði. „Ég tel t.d. ólíklegt að IMF hefði samþykkt allt það sem gert var, enda fóru íslenskir hagsmunir þess tíma ekki endilega saman við hagsmuni þeirra ríkja sem þar ráða för," segir Lilja. Hún segir aðkoma IMF á síðari stigum engu að síður hafa verið mikilvæga og að hin mikla reynsla starfsmanna sjóðsins hafi nýst Íslandi vel. „Sem fyrrverandi starfsmaður IMF veit ég hvers megnugur sjóðurinn er. Í tilviki Íslands veitti hann góð ráð, gerði mikilvægar og gagnlegar úttektir og fylgdi málum fast eftir. Fyrir það erum við þakklát, en lausnirnar sem hafa gefist eins vel og raun ber vitni, eru heimasmíðaðar," sagði Lilja.
Lilja ræddi fjármagnshöftin, sem hún sagði hafa skapað nauðsynlegt skjól fyrir Ísland, að því er segir í tilkynningu. Nú þegar losun haftanna sé langt komin sé mikilvægt fyrir Seðlabankann að geta gripið inn í gjaldeyrismarkað ef greiðslujöfnuði þjóðarbúsins sé ógnað. „Fyrir lítið og opið hagkerfi er annað óhugsandi, sérstaklega í ljósi fenginnar reynslu,“ sagði Lilja, að því er segir í tilkynningu.
Í fyrirlestrinum setti Lilja aðgerðirnar í alþjóðlegt samhengi og fjallaði m.a. um áhrif ytri aðstæðna, sem hafa um margt verið hagstæðar. Hún benti á að mikil aukning í ferðaþjónustu hafi skilað Íslandi miklu á sama tíma og innflutt verðbólga hafi verið lág. Ekki væri hins vegar hægt að treysta á viðvarandi hagfelldar ytri aðstæður og því væri nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að fylgjast náið með þróun mála og grípa inn í með faglegum hætti.
Aðspurð sagði utanríkisráðherra, að Íslandi hefði reynst vel við að ráða sér sjálft við þessar aðstæður og ekki þurfa að bera stefnu sína eða einstakar aðgerðir undir yfirþjóðlegt vald. „Sú staða skapaði mikla ábyrgðartilfinningu innanlands og enginn vænti þess að fá sendar lausnir utan úr heimi við erfiðum vanda. Við getum enda verið stolt af því hvernig hefur tekist að vinna úr málunum og að réttar stefnumótandi ákvarðanir hafi verið teknar," sagði Lilja.