Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, mælist nú með tólfprósentustiga forskot á Donald Trump, forsetaefni Repúblikana, þegar fimmtán dagar eru til kosninga. Ný könnun, sem unnin var fyrir ABC-fréttastöðina, leiddi í ljós 50 prósent stuðning við Hillary en 38 prósent studdu Trump. Um fimm prósent studdu Gary Johnson, og rúmlega tvö prósent Jill Stein. Ómarktækur stuðningur var við aðra.
Afgerandi munur er á stuðningi þegar skoðuð eru viðhorf karla og kvenna, en Hillary er með meira en 20 prósentustiga forskot hjá konum en aðeins þriggja prósentustiga forskot hjá körlum.
Þrátt fyrir að þessa nýjasta könnun sýni meiri mun á milli Hillary og Trump, en mælst hefur áður, þá sýna útreikningar FiveThirtyEight.com, sem vegur og metur kannanir á landsvísu, að Hillary er nú með 49,6 prósent fylgi en Donald Trump 43,2 prósent.
Þegar sigurlíkurnar eru metnar, eftir skoðun á stöðu mála í einstaka ríkjum, er staðan verulega mikið Hillary í vil um þessar mundir. FiveThirtyEight telur 86,2 prósent líkur á að Hillary vinni kosningarnar en 13,8 prósent að Trump.