Viðreisn vill að tekjur ríkisins af uppboði aflaheimilda í sjávarútvegi renni í sérstakan innviðasjóð sem notaður verði til að byggja upp fjölbreyttar stoðir atvinnulífs, ekki síst á landsbyggðinni. Viðreisn segir að uppboð aflaheimilda geti skilað 20 milljörðum króna á ári í ríkissjóð.
Þetta er meðal áherslumála Viðreisnar, sem hafa nú verið kynnt formlega.
Í nánari útlistun flokksins á innviðasjóðnum kemur fram, að flokkurinn vilji fara markaðsleið í sjávarútvegi sem komi í stað veiðileyfagjalda. „Markaðsleiðin tryggir að loksins sé greitt sanngjarnt verð fyrir afnotin af auðlindinni. Verð sem er ákvarðað af markaðinum en ekki af mönnum inni í ráðuneyti. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi og opnar á nýliðun. Viðreisn ætlar að setja á fót Innviðasjóð. Þannig verði afgjaldinu sem fæst fyrir afnotin af auðlindinni varið til innviðauppbyggingar á þeim svæðum þar sem kvótinn er upprunninn,“ segir í tilkynningu frá Viðreisn.
Með þessum hætti verði hægt að efla tekjustofna sveitarfélaga og auðvelda uppbyggingu á innviðum víða um landið, ekki síst til að gera svæðin móttækilegri fyrir erlendum ferðamönnum. „Þetta er spurning um að tryggja öryggi bæði borgaranna og ferðamannana - t.d. Að ráðast í nauðsynlegar samgönguúrbætur, uppbyggingu á ferðamannastöðum, heilsugæslu, fjarskiptamál og að efla löggæslu. Við teljum að varlega áætlað getum við gert ráð fyrir að kjördæmin fái hlutdeild í sem gæti verið 3-4 milljarðar á hvert landsbyggðarkjördæmi og svipað fyrir höfuðborgarsvæðið ef markaðsleiðin gefur 15 milljarða en 4-5 milljarða á kjördæmi ef hún gefur 20 milljarða,“ segir í útlistun flokksins á innviðasjóðshugmyndinni.
Myntráð og lægri vextir
Í kosningabaráttunni hefur Viðreisn talað fyrir myntráði þar sem hugmyndin er að festa gengi krónunnar við erlenda mynt. Með því móti segir Viðreisn mögulegt að lækka vaxtastig á landinu. Miðað við þriggja prósenta lækkun vaxta þá myndi myndast 180 milljarða sparnaður á Íslandi hjá sveitarfélögum, ríkinu, fyrirtækjum og einstaklingum.
Með þessu móti telur flokkurinn mögulegt að lækka vaxtabyrði dæmigerðar fjölskyldu um allt að 50 þúsund krónur á mánuði, því er segir í útlistunum Viðreisnar.
Hófleg útgjaldaaukning
Í áformum Viðreisnar er enn fremur horft til þess að auka útgjöld til heilbrigðsmála umtalsvert og að þau verði 39 milljörðum hærri, á föstu verðlagi, árið 2020 en þau eru nú. Þá vill Viðreisn flýta uppbyggingu við Landsspítala. Byggingu meðferðarkjarna verði lokið eigi síðar en 2022. Gert er ráð fyrir 10 milljarða framlagi á ári til byggingarframkvæmda við Landsspítala á kjörtímabilinu. Það er tvöföldun miðað við gildandi fimm ára ríkisfjármálaáætlun.