Bilið milli Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata, og Donald J. Trump, frambjóðanda Repúblikana, hefur minnkað töluvert á skömmum tíma, og sýnir mæling vefsins FiveThirtyEight nú að 48,8 prósent styðji Hillary en 44,8 prósent Donald Trump. Stuðningurinn við framboð Gary Johnson hefur farið vaxandi og mælist 4,6 prósent. Svo gæti farið að framboð hans geti haft verulega mikið að segja um það hvort Hillary eða Trump vinni, en talið er að framboð hans skaði fyrst og fremst Hillary.
Sigurlíkurnar eru þó enn Hillary megin, en vefurinn metur sigurlíkur hennar 71,2 prósent og líkur Donald Trump 28,8 prósent. Ekki eru nema 10 daga síðan líkurnar voru 87 prósent hjá Hillary, en á undanförnum dögum hefur neikvæð umræða, vegna þeirrar ákvörðun alríkislögreglunnar FBI að hefja að nýju rannsókn á tölvupóstum Hillary Clinton, haft slæm áhrif á framboð hennar.
Í New York Times kom fram í gær, að ákvörðun James B. Comey, framkvæmdastjóra FBI, um að tilkynna þinginu um að rannsókn hefði verið tekin upp á nýjan leik, hefði sett FBI beint inn í kosningabaráttuna á versta tíma. Daniel Richmann, prófessor í lögfræði við Columbia háskóla, segir í viðtali við blaðið að FBI sé að grafa undan sjálfstæði stofnunarinnar með þessari tímasetningu, og í versta falli muni það nýtast nýjum forseta.
Kosið verður í Bandaríkjunum 8. nóvember, eða eftir sex daga. Kjarninn hefur haldið úti vikulegu ítalegu hlaðvarpi um kosningarnar, Kanavarpinu, en umsjónarmenn þess eru Hjalti Geir Erlendsson, lögfræðingur, og Hallgrímur Oddsson hagfræðingur. Í nýjasta þættinum er fjallað um rannsókn FBI á tölvupóstum Hillary og starfsfólki hennar, og hvernig staða mála er nú.