Hagar hf. hafa sett fram skuldbindandi kauptilboð í alla hluti í Lyfju hf., en Lyfja hf. er í opnu söluferli sem Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar hf. annast fyrir hönd seljanda. Seljandi Lyfju hf. er Ríkissjóður Íslands en Lindarhvoll ehf. fer með söluna fyrir hönd seljanda á grundvelli laga um Seðlabanka Íslands og samnings við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum til kauphallar Íslands.
„Samkvæmt söluferlinu stóð fjárfestum til boða að skila inn óskuldbindandi tilboðum í allt hlutafé í Lyfju þann 5. október 2016. Tilteknir fjárfestar voru teknir áfram í annan hluta söluferlis og rann skilafrestur skuldbindandi tilboða út kl. 16 í dag, mánudaginn 7. nóvember 2016. Eftir að skuldbindandi tilboð berast í félagið ákveður seljandi hvort halda eigi áfram með söluferlið, með einum eða fleiri aðilum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Lyfja hf. samanstendur af móðurfélaginu Lyfju hf. ásamt dótturfélögunum Heilsu ehf. og Mengi ehf. Lyfja rekur samtals 39 apótek. Íslenska ríkið eignaðist Lyfju þegar slitabú föllnu bankanna létu frá sér eignir til ríkisins með svokölluðum stöðugleikaframlögum.
Hagar hafa enn sem komið er takmarkaðan aðgang að upplýsingum um Lyfju, segir í tilkynningu. Tilboðið er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir má gera ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum fyrir mitt næsta ár.
Markaðsvirði Haga, sem reka búðir meðal annars undir merkjum Bónuss og Hagkaup, er nú ríflega 59 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum á vef Keldunnar.