Mjótt er á munum í mörgum ríkjunum fyrir kosningarnar sem fara fram á morgun í Bandaríkjunum. Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata, og Donald J. Trump, frambjóðandi Repúblikana, reyna allt til að fá fólk á kjörstað og kjósa sig. Trump hefur lagt áherslu á að halda marga stóra fundi síðustu daga, til að ná að tala til margra í einu.
Hillary hvetur alla til að kjósa, og hefur lagt áherslu á það að undanförnu að valið standi á milli hennar, og síðan valkosts sem þýði upplausn í bandarísku þjóðfélagi.
FBI staðfesti í gær, að ekkert í tölvupóstum Hillary, gæfi tilefni til þess að saksækja hana, en umræða um tölvupóstana og rannsókn FBI hefur haft verulega skaðleg áhrif á framboð hennar undanfarna daga.
Samkvæmt mælingum FiveThirtyEight, sem vegur saman skoðanakannanir vítt og breitt um Bandaríkin, er stuðningurinn við Hillary nú 48,3 prósent en við Trump 45,4 prósent. Stuðningurinn við Gary Johnson mælist 4,8 prósent. Vefurinn telur um 65 prósent líkur á að Hillary vinni, en 35 prósent að Trump vinni.
Spennan er sérstaklega mikil í fjórum ríkjum Bandaríkjanna, þar sem kannanir hafa sýnt afar jafna stöðu undanfarna daga. Það eru Nevada, Flórída, Norður-Karólína og Ohio.
Samkvæmt FiveThirtyEight eru nú 49,5 prósent líkur á að Hillary sigri í Nevada en 50,5 prósent að Trump sigri. Í Flórída eru nú sagðar 47,8 prósent líkur á að Hillary sigri, en 52,2 prósent að Trump sigri. Í Norður-Karólínu og Ohio hefur munurinn verið lítill lengi en líkurnar í þessum tveimur ríkjum eru einnig Trump megin, samkvæmt FiveThirtyEight, en fyrir aðeins tveimur vikum voru líkur með Hillary í öllum þessum ríkjum. Mestur er munurinn í Ohio, en 65 prósent líkur er nú taldar á sigri Trump þar en 35 prósent líkur á sigri Hillary.
Helstu vígi Hillary núna eru á vestur- og austurströndinni, en þar er staða hennar sterk og líklegt að í flestum ríkjum þar muni hún sigra.