Arion banki og European Investment Fund, EIF, hafa undirritað svonefndan InnovFin ábyrgðarsamning sem miðar að hagstæðum lánveitingum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja er hyggjast innleiða nýjungar í starfsemi sinni.
Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu Arion banka og EIF.
InnovFin samningurinn gerir Arion banka kleift að veita þessum fyrirtækjum lán á næstu tveimur árum sem eru studd með ábyrgð frá Fjárfestingarsjóði Evrópu í samræmi við Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunarrammaáætlun Evrópusambandsinsm (ESB). Áætlað er að stuðningur ESB við íslensk nýsköpunarfyrirtæki leiði af sér lánasafn að andvirði 107 milljón evra eða um 13 milljarða króna, að því er segir í tilkynningunni.
EIF ábyrgist helming lánsfjárhæðar hvers láns, sem Arion banki veitir, samkvæmt samningnum.
Framkvæmdastjóri Fjárfestingarsjóðs Evrópu, Pier Luigi Gilibert, segir í tilkynningu að það sé gleðilegt fyrir sjóðinn að undirrita fyrsta samning sem þennan á Íslandi. „Þetta er jafnframt fyrsti InnovFIn samningurinn sem Fjárfestingarsjóður Evrópu gerir í EFTA ríki. 107 milljónir evra er veruleg upphæð fyrir íslensk fyrirtæki og við erum sannfærð um að lánasafnið, sem Arion banki ætlar að byggja upp, stutt ábyrgðum InnovFin, muni efla nýsköpun á Íslandi,“ segir Gilibert.
Bakábyrgð ESB nýtist vel
Framkvæmdastjóri ESB í málefnum rannsókna, vísinda og nýsköpunar, Carlos Moedas, segir að bakábyrgð ESB muni koma sér vel fyrir íslensk fyrirtæki. „Íslensk fyrirtæki, sem leggja áherslu á nýsköpun, geta nú notið góðs af ábyrgðum ESB sem geta alls numið 107 milljónum evra í takt við Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunarrammaáætlun ESB. Samningurinn, sem var undirritaður í dag, mun hjálpa fyrirtækjum að ná markmiðum sínum og leggja sitt af mörkum til hagvaxtar og atvinnusköpunar á Íslandi.“
Styðja við nýsköpun
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fagnar samningnum í tilkyningu og segir bankann hafa lagt mikið kapp á að styðja við nýsköpun í atvinnulífinu. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við hvers kyns nýsköpun. Samningurinn við European Investment Fund er liður í því og gerir okkur kleift að lána til lítilla og meðalstórra fyrirtæki vegna fjárfestinga þeirra í nýsköpun – í víðustu merkingu þess orðs. Þessi samningur gerir okkur kleift að lána á hagstæðari kjörum en ella þar sem sjóðurinn tekur á sig hluta þeirrar áhættu sem í lánveitingunni felst. Við erum spennt að kynna þessa nýjung fyrir íslenskum fyrirtækjum sem eru að fjárfesta í nýsköpun, vöruþróun, nýjum framleiðsluaðferðum eða sókn á nýja markaði,“ segir Höskuldur.
Markmiðið með ábyrgðum InnovFin fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er að hvetja fjármálastofnanir til að lána fyrirtækjum, með færri en 500 starfsmenn, til fjárfestinga og/eða fjármögnunar rannsókna, þróunar og nýsköpunar, með fjárstuðningi frá ESB. Fjárfestingarsjóður Evrópu velur fjármálastofnanir víðs vegar um Evrópu sem lýst hafa yfir áhuga á því að gerast milliliðir.
Fjárfestingarsjóður Evrópu (EIF) er hluti af Evrópska fjárfestingarbankanum. Með InnovFin fást ábyrgðir og gagnábyrgðir fyrir fjármögnun að upphæð frá 25 þúsundum evra til 7,5 milljóna evra til þess að auka aðgengi lítilla og meðalstórra nýsköpunarfyrirtækja (með færri en 500 starfsmenn) að lánsfjármagni. Fjárfestingarsjóður Evrópu stýrir verkefninu með milligöngu banka og annarra fjármálastofnana í ESB-ríkjum og öðrum aðildarlöndum. Fjárfestingarsjóður Evrópu tryggir milliliðina fyrir hluta af því tapi sem kann að verða vegna lánveitinga samkvæmt áætluninni.