Á fundum sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, átti með Ríkisendurskoðun í ágúst og september féllst bankastjórinn á, samkvæmt frásögn Morgunblaðsins, að líkast til hefði bankinn gleymt að spyrja forsvarsmenn greiðslukortafyrirtækisins Borgunar út í aðild þess að Visa Europe, þegar bankinn seldi 31,2% hlut sinn í fyrirtækinu í árslok 2014.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en fjallað er um drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á eignum Landsbankans á síðustu árum. Íslenska ríkið er eigandi Landsbankans.
Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á 31,2 prósent eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Það er mat bankaráðs að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum voru ekki veittar nauðsynlegar upplýsingar.
Landsbanki Íslands, sem íslenska ríkið á, sendi frá sér fréttatilkynningu í nóvember 2014 þar sem fram kom að Steinþór Pálsson bankastjóri, hefði undirritað samning um sölu á 31,2 prósent eignarhlut í Borgun. Kaupverðið á hlutnum var tæplega 2,2 milljarðar króna og var kaupandi hlutarins Eignarhaldsfélag Borgunar Slf. þar sem stjórnendur Borgunar voru meðal hluthafa.
Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt, en Magnús Magnússon, forsvarsmaður félagsins, var sá sem setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans.