Verðmiðinn á Icelandair hefur lækkað um 73 milljarða króna á síðustu sex mánuðum en í lok dags í gær, nam heildarvirði fyrirtækisins 115,9 milljörðum króna. Um mitt ár var það 189 milljarðar. Hlutu stærsta hluthafa fyrirtækisins, Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE), hefur rýrnað um 10 milljarða króna á þessu tímabili. Hann nú ríflega 17 milljarða króna virði, en nam ríflega 27 milljörðum um mitt þetta ár.
Lífeyrissjóðir stærstu hluthafar
LIVE er stærsti hluthafinn í fyrirtækinu með 14,69 prósent hlut. Lífeyrissjóðirnir eiga stóran hlut í fyrirtækinu, en næsti stærsti hluthafinn er Stefnir – ÍS 15 með 9,53 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður á 6,97 prósent, A-deild LSR 6,83 prósent og Stefnir – ÍS 5 4,9 prósent. Samtals er þetta um 43 prósent hlutur, og eiga aðrir minni hluthafar því 57 prósent hlutafjár.
Í lok þriðja ársfjórðungs þessa árs námu heildareignir fyrirtækisins tæplega 1,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 150 milljörðum króna. Eigið fé fyrirtækisins var á þeim tíma 585 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 700 milljónir króna.
Óhætt er að segja að hlutabréfamarkaðurinn hér á landi hafi farið í gegnum töluvert sveiflutímabil að undanförnu, sérstaklega þegar horft er til stærstu félaganna í kauphöllinni, Marels, Icelandair og Össurar.
Í gær lækkaði Icelandair um 2,51 prósent og Marels um 1,42 prósent, en eins og Kjarninn greindi frá á dögunum þá telja greinendur Landsbankans að Marel sé töluvert undirverðlagt á markaðnum um þessar mundir, þar sem rekstrarhorfur fyrirtækisins séu góðar að allt bendi til þess að næsta ár verði fyrirtækinu hagfellt.
Úrsvalsvísitala markaðarins lækkaði um 1,02 prósent í
gær, lækkaði Icelandair mest allra félaga í verði í 367 milljóna króna
viðskiptum.
Samhliða lækkunum á hlutabréfamarkaði hefur gengið krónunnar styrkst nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum, Bandaríkjadal, evru og pundi.
Pundið kostar nú 140 krónur en það kostaði 206 krónur fyrir ári. Evran kostar 121 krónu, en var í 150 krónum fyrir ári. Bandaríkjadalur kostar nú 113 krónur en kostaði 136 krónur fyrir rúmlega ári síðan.