Eftir að New York Times greindi frá því á mánudaginn, að stjórnendur Facebook hefðu rætt það sín á milli, hvort það væri „þeim að kenna“ að Donald Trump hefði unnið forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, þá hefur mikil umræða spunnist um það á hvaða vegferð samfélagsmiðlarnir séu þegar kemur að umræðu um hin ýmsu mál.
Ekki okkur að kenna
Facebook hefur sérstaklega verið til umræðu í Bandaríkjunum, og sá Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, ástæðu til að skrifa um þetta á Facebook síðu sína 13. nóvember síðastliðinn. Í grein hans á síðunni, segir hann 99 prósent af því sem sett er fram á Facebook sé greinanlegt eftir höfundi og þannig auðrekjanlegt. Örlítill hluti af heildinni sé það ekki, því „afar ólíklegt“ Facebook hafi ekki haft áhrif á það hvernig fór í kosningunum 8. nóvember síðastliðinn.
Í pistlinum segir hann einnig, að það sé ekki í verkahring Facebook að ritskoða efnið sem sé dreift á samfélagsmiðlinum og virða þurfi skoðanafrelsi í hvívetna. Hins vegar geti fyrirtækið gert meira til að tryggja að fólk sjái fyrst og fremst það sem það hefur áhuga á og villa sjá. Alltaf megi gera betur og það ætli fyrirtækið að gera.
Róar ekki fólk
Á vefnum Inc.com, sem fjallar um nýsköpun og viðskipti, segir að starfsfólk Facebook sé ósátt við hvernig fréttastraumi (News Feed) sé háttað, þar sem oft birtist á honum áróðurskenndar umfjallanir sem fólk hafi ekki óskað eftir. Þetta hafi verið áberandi í aðdraganda kosninganna og margar af vinsælustu fréttunum á Facebook, samkvæmt BuzzFeed, hafi verið rangar og uppspuni frá rótum.
Þessu hafa starfsmennirnir áhyggjur, og vilja gera breytingar til úrbóta.
Wall Street Journal greindi frá því í gær að Google og Twitter væru einnig undir pressu vegna þess hversu vaxandi villandi áróður væri orðinn á netinu, og hversu auðvelt það virtist vera að koma honum fyrir augu fólks.
Facebook er þó orðið áhrifameira, en samfélagsmiðillinn er nú með 1,8
milljarð manna sem notendur um allan heim mánaðarlega, og notkun eykst stöðugt, sérstaklega á farsímum.