Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að 1500 danskir sjúklingar fái að taka þátt í sérstöku tilraunaverkefni og nota kannabis í lækningaskyni. Um það bil 200 Danir hafa um nokkurra ára skeið fengið að nota kannabis til að lina þrautir, hráefnið hefur verið keypt frá framleiðanda í Þýskalandi en blandað og sett saman í apóteki í Danmörku. Þýska fyrirtækið getur ekki selt Dönum meira kannabis en það gerir nú þegar. Dönsk heilbrigðisyfirvöld telja að árlega þurfi 350 til 400 kíló af kannabis til að þeir sjúklingar sem taka þátt í tilraunaverkefninu fái það magn sem þeir þurfa en verkefnið á að hefjast 1. janúar 2018.
Margir kannast við þetta orð, kannabis, og þegar fjallað er um það í fjölmiðlum tengist það oftast ólöglegri iðju, sölu, ræktun eða neyslu.
Kannabis er hins vegar ekki bara eitthvað eitt ef svo mætti segja enda ganga plantan og „afurðirnar“ undir ýmsum nöfnum t.d. hass, hampur, marijúana, gras, jóna o.fl. Skilgreiningarnar eru þó nokkuð á reiki. Áður fyrr kölluðust t.d afurðir kannabisplöntunnar einu nafni hampur en í dag er orðið einkum notað um afurðir sem ekki tengjast vímuefnum með neinum hætti. Flestir Íslendingar kannast líklega við Hampiðjuna, gamalt og rótgróið fyrirtæki (stofnað 1934) sem framleiðir margskonar vörur, einkum tengdar sjávarútvegi. Hampiðjan notaði einkum hamp í framleiðsluna fyrstu áratugina en um 1960 tóku önnur efni við.
Kannabis hefur verið notað um aldir
Vísindamenn hafa lengi rannsakað áhrif kannabisplöntunnar á mannslíkamann en aldagamlar heimildir frá Kína og Indlandi benda til að kannabis (hampur) hafi verið notað í lækningaskyni. Notkun kannabis hefur löngum mætt mikilli andstöðu en á undanförnum árum hefur umræðan hinsvegar breyst.
Hollendingar hafa verið framarlega í rannsóknum og notkun á kannabis til lækninga. Þar er kannabis framleitt undir ströngu eftirliti, kallað læknandi kannabis.
Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa falast eftir kaupum á efninu frá hollenska framleiðandanum, sem segist einungis geta selt Dönum 35 kíló á ári. Sem sé einungis 10 prósent þess sem danskir sjúklingar þurfa á að halda.
Bændur tilbúnir ef leyfi fæst
Þegar það spurðist út að heilbrigðisyfirvöld væru í vandræðum með að útvega kannabis létu danskir bændur strax í sér heyra. Kváðust tilbúnir að taka að sér þessa ræktun. Talsmaður bændasamtakanna sagði að auk þess að framleiða fyrir heilbrigðisyfirvöld væru margir aðrir möguleikar í boði. „Kannabisplantan er merkilegt fyrirbæri sem æ fleiri hafa nú komið auga á,“ sagði talsmaðurinn og nefndi byggingaiðnaðinn, snyrtivöruframleiðendur, bílaframleiðendur og margt fleira.
Vilja kannabisráð á Kristjánsborg
Bændasamtökin hafa lagt til að danska þingið, Folketinget, skipi sérstakt kannabisráð til að skipuleggja framleiðslu og eftirlit. Þeir bændur sem fá leyfi til framleiðslunnar verði að uppfylla margs konar skilyrði, einsog í öllum greinum landbúnaðarins. Margir þingmenn hafa tekið vel í þessa hugmynd sem ennþá er á byrjunarstigi.
Frjálsræðisbandalagið,Liberal Alliance, sem á 13 fulltrúa á danska þinginu efnir í febrúar næstkomandi til ráðstefnu um ræktun kannabis í Danmörku. Þangað koma sérfræðingar frá mörgum löndum. Þessi ráðstefna var löngu ákveðin og stendur ekki í beinu sambandi við tilraunaverkefni danskra heilbrigðisyfirvalda.