Eimskipafélag Íslands er nú rúmlega 62 milljarða króna virði, miðað við gengi á markaði, og hefur virði félagsins aukist um tæplega 42 prósent á einu ári. Í gær nam dagshækkunin 3,25 prósent, sem telst mikið innan dags, en í vikunni var hækkunin 6,3 prósent.
Stærsti hluthafinn er bandarískur, Yucapia Alliance Fund, en hann á ríflega 25 prósent hlut í tveimur sjóðum. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti íslenski hluthafinn með 13,74 prósent hlut. Gildi lífeyrissjóður er síðan næst stærsti íslenski hluthafinn með 8,97 prósent hlut.
Tekjur félagsins námu tæplega 500 milljónum evra í fyrra, eða sem nemur um um 61 milljarði króna. Á þriðja ársfjórðungi námu tekjurnar 134 milljónum evra, eða sem nemur 16,3 milljörðum króna. Hagnaður af rekstrinum var 9,3 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur 1,1 milljarði íslenskra.
Eigið fé félagsins var um 240 milljónir evra í lok þriðja ársfjórðungs, eða sem nemur tæplega 30 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins nú er því ríflega tvöfalt eigið fé þess.