Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað í dag upp úrskurð vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 7. júlí síðastliðnum, en þá var MS sektað um 480 milljónir króna vegna misnotkunar fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu.
Áfrýjunarnefndin breytir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í úrskurði sínum og lækkar sekt vegna málsins í 40 milljónir. Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar, það er tveir nefndarmenn af þremur, taka síðan undir þau sjónarmið MS að búvörulögin séðu æðri samkeppnislögum, og fella því þau sjónarmið Samkeppniseftirlitsins úr gildi í málinu.
Með ákvörðun sinni 7. júlí komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með alvarlegum hætti með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði.
Var þetta til þess fallið að veita MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot og geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti, að mati Samkeppniseftirlitsins. Taldi Samkeppniseftirlitið að háttsemin væri til þess fallin að skaða á endanum hagsmuni bæði neytenda og bænda. „Þá lá fyrir að MS veitti Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Áfrýjunarnefndi er sammála Samkeppniseftirlitinu um að Mjólkursamsalan hafi „með alvarlegum hætti“ brotið samkeppnislög með því að halda mikilvægum upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu við rannsókn málsins. Hafi félagið torveldað rannsóknina með því háttalagi. Staðfesti nefndin þá stjórnvaldssekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á MS vegna þessa, segir í tilkynningu, og er 40 milljóna sektin eingöngu vegna þessa.
„Í úrskurði sínu klofnaði áfrýjunarnefndin hins vegar í afstöðu sinni til þess hvort um misnotkun á markaðsráðandi stöðu hefði verið að ræða. Þannig byggir meirihluti nefndarinnar (tveir nefndarmenn) á því að ákvæði búvörulaga, sem heimilar mjólkurafurðastöðvum samstarf sem ella væri ólögmætt samkvæmt samkeppnislögum, hafi í raun heimilað MS að selja hrámjólk á lægra verði til tengdra aðila heldur en til sjálfstæðra afurðastöðva. Á þessum forsendum fellir meirihlutinn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins út gildi að þessu leyti. Minnihluti nefndarinnar (formaður nefndarinnar) lýsti sig hins vegar sammála þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að MS „hafi brotið alvarlega gegn 11. gr. samkeppnislaga. Einnig tel ég að sú sekt sem ákveðin var í hinni kærðu ákvörðun sé rétt ákveðin““ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna málsins.
Nefndin tekur ekki undir gagnrýni MS á málsmeðferð og rannsókn Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir, að það muni nú fara yfir úrskurðinn og taka afstöðu til þess hvort rétt sé að bera hann undir dómstóla.
Í áfrýjunarnefndinni eru Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, formaður. Anna Kristín Traustadóttir, löggiltur endurskoðandi og Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands.