Framleiðni vinnuafls í sjávarútvegi óx mikið á milli áranna 2005 og 2008 þegar framleiðsluvirði á hvert starf jókst um 16,1 milljón króna eða um 59 prósent. Jókst framleiðsluvirði greinarinnar um 17 prósent á þessum tíma á meðan starfsfólki fækkaði um 26,5 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sjávarútvegsteymis Íslandsbanka. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að heildarhagnaður í sjávarútvegi í fyrra hafi numið 46 milljörðum króna og hækkaðum 1,6 milljarða frá fyrra ári. Heildartekjur fyrirtækja í greininni námu 275 milljörðum króna og jukust milli ára.
Frá árinu 2008 til ársins 2013 jókst framleiðsluvirði á hvert starf í greininni í heild um 6,3 prósent sem jafngildir 1,2 prósent af árlegri framleiðniaukningu. „Framleiðni vinnuafls hefur aukist með meiri sjálfvirkni sem fylgir tækniframþróun við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Á árinu 2014 skilaði hvert starf tæplega 39 m.kr. og lækkaði framleiðsluvirði á hvern starfsmann um 15,7 prósent frá árinu 2013,“ segir í skýrslunni.
Á árinu 2015 störfuðu um 7.800 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4,2 prósent af vinnuafli landsins og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra frá árinu 2008 þegar það náði lágmarki og var þá um fjögur prósent. Störfum í sjávarútvegi fækkaði um 1.300 frá árinu 2014 og þar af voru 1.000 störf í fiskiðnaði og 300 í fiskveiðum. Hefur störfum í greininni fækkað um 45 prósent frá árinu á síðustu nítján árum, eða um 6.400. „Frá þessum tíma hefur konum í greininni fækkað hlutfallslega meira en körlum, eða um 60 prósent, og er 21 prósentustigs munur á breytingu á fjölda starfa eftir kyni. „Á árinu 2015 voru 1.800 konur starfandi í sjávarútvegi eða um 23% af vinnuafli greinarinnar. Flestar konur í greininni starfa í fiskiðnaði eða um 1.500 (83%) og aðeins 300 þeirra starfa í fiskveiðum. Meirihluti karla starfar hinsvegar við fiskveiðar eða 3.700 (63%). Um 83% af störfum í sjávarútvegi á árinu 2015 voru á landsbyggðinni eða um 6.400 störf. Frá árinu 1997 hefur hlutfallsleg fækkun starfa verið mun jafnari eftir búsetu en eftir kyni en hlutfallslega fleiri störfum hefur fækkað á landsbyggðinni (46%) en á höfuðborgarsvæðinu (43%),“ segir í skýrslunni.