Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald J. Trump, segir í viðtali við New York Times að það „geti verið“ að mannfólkið á jörðinni eigi sök á hlýnun jarðar og hann segist ætla að nálgast það með „opnun huga“ hvort Bandaríkin ætli sér að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu þar sem markmiðið er að draga verulega úr mengun og vinna gegn hlýnun jarðar. Samtals hafa 195 þjóðir skuldbundið sig til að vinna eftir samkomulaginu og hefur fullgilding þess farið fyrir þing þjóðanna til samþykktar, meðal annars á Íslandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem Trump opnar á möguleikann á því að vísindi sem sýna að hlýnun jarðar sé af mannavöldum geti verið rétt. Í kosningabaráttunni margítrekaði hann að Bandaríkin myndu fara úr Parísarsamkomulaginu og að hlýnun jarðar væri bull og vitleysa.
Svo virðist sem þessi sjónarmið Trumps hafi ekki rist djúpt því nú boðar hann að skoða málin með opnum huga.
Það sama gildir um pyntingar við yfirheyrslur en í kosningabaráttunni talaði hann fyrir því að það ætti að vera „sjálfsagt mál“ að nota pyntingaraðferðir til að ná í upplýsingar frá hryðjuverkamönnum, þar á meðal köfnunarpyntingar með vatni (Waterboarding). Hann segist hafa skipt um skoðun eftir að hafa rætt málin við hershöfðingja og sérfræðinga.
Trump vinnur nú að því að setja saman starfslið sitt og fer vinnan fram í Trump turninum skammtfrá fjölmiðlatorginu í New York borg, sem er við 59. stræti skammt frá horni Central Park vestan megin á Manhattan.